Tíu ár síðan Stykkishólmur ruddi brautina

Þórunn Sveinbjarnardóttir, Erla Friðriksdóttir, Jón Þór Frantzson og Gretar D. Pálsson

Nú í lok janúar eru liðin tíu ár frá því Stykkishólmur hóf að flokka heimilissorp í þrjár tunnur, brúna tunnu fyrir lífrænan úrgang, græna fyrir endurvinnsluefni og gráa fyrir það sem fer til urðunar. Stykkishólmur varð þannig fyrsta sveitarfélagið á landinu til að flokka lífrænan úrgang til jargðerðar og uppfylla þar með skilyrði reglugerðar 737/2003 sem kveður m.a. á um takmörkun á urðun lífræns úrgangs. Við þessi tímamót tók Stykkishólmsbær afgerandi forystu sveitarfélaga á landinu í þessum málaflokki.
Samningur um flokkunina var undirritaður af bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar Erlu Friðriksdóttur og Jóni Þóri Frantzsyni forstjóra Íslenska Gámafélagsins, í Vatnasafninu í Stykkishólmi þann 15. nóvember 2007 að viðstöddum umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur og Gretari D. Pálssyni forseta bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar. Markmið verkefnisins var að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar að minnsta kosti um 60%

Verkefnið hófst síðan formlega föstudaginn 18. janúar 2008 þegar haldinn var opinn íbúafundur á Ráðhúsloftinu þar sem verkefnið var kynnt. Dagana þar á eftir heimsótti starfsfólk Íslenska Gámafélagsins öll heimili bæjarins og veitti íbúum upplýsingar um flokkunina og gaf ráðgjöf um staðsetningu íláta innandyra sem utan.

Verkefninu var einstaklega vel tekið af íbúum Stykkishólmsbæjar. Allir sýndu verkefninu mikinn áhuga og lögðu sig fram um að flokka allt sem til féll á heimilunum. Árangurinn lét heldur ekki á sér standa því strax á fyrsta mánuðinum eftir að flokkunin hófst hafði markmiði verkefnisins verið náð en þá fór einungis 32% af því sem safnaðist frá heimilum, til urðunar.

Eftir hið margfræga hrun þá minnkaði þyngd grænu tunnunnar þar sem útgáfa og dreifing dagblaða minnkaði gríðarlega. Engu að síður hélst flokkunarhlutfall í Stykkishólmi gott sem skýrist með því hversu duglegir íbúar eru að flokka. Þrátt fyrir minna pappírsmagn þá hefur flokkunarhlutfallið í Stykkishólmi undanfarin 10 ár verið 55% þ.e.a.s. einungis 45% af því sem sett er í tunnur við heimili fer til urðunar.
Íbúar Stykkishólmsbæjar geta verið mjög stoltir af þeim árangri sem þeir hafa náð. Umhverfislegur ávinningur af verkefninu hefur verið mikill. Fyrst má nefna að frá því að flokkunin hófst hafa rúmlega 1.000 tonn farið í endurvinnslu á einn eða annan hátt. Þetta magn hefði að óbreyttu endað í urðun með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Flokkun lífræns úrgangs er einstaklega umhverfisvæn aðgerð þar sem með jarðgerð er hægt að endurheimta næringarefni úr matvælunum sem annars hefðu grafist djúpt í urðunarstaðnum og ekki orðið að neinu gagni. Þar sem jarðgerðin er staðsett á staðnum sparast einnig akstur með úrganginn á urðunarstað. Síðast en alls ekki síst geta íbúar fengið næringarríka moltu án endurgjalds og nýtt hana t.d. við gróðursetningar eða sem yfirlag í trjábeð. Með því að nota moltu er næringarefnum úr lífræna heimilisúrganginum aftur komið í hringrás náttúrunnar.

Þeir flokkar sem fara í Grænu tunnuna eru pappír, pappi, plast og málmar. Innihald Grænu tunnunnar fer til frekari flokkunar og síðan fer hver flokkur sína leið til endurvinnslu. Flokkun í Grænu tunnuna er mikilvægur liður í því að draga úr álagi á auðlindir jarðar. Þannig sparar plastið sem fer til endurvinnslu olíu og pappírinn sem er endurnýttur kemur í veg fyrir að fella þurfi tré til að frameiða nýjan pappír. Með flokkuninni má segja að Hólmarar hafi nú þegar komið í veg fyrir að fella hafi þurft um 5.000 fullvaxin tré til pappírvinnslu.

Þá er ekki síður mikilvægt það fordæmi sem Stykkishólmur hefur verið öðrum sveitarfélögum. Eftir að Stykkishólmur reið á vaðið og sýndi fram á það hversu einfalt og auðvelt það er að draga úr umhverfisáhrifum okkar með því að flokka, hafa tæplega tuttugu önnur sveitarfélög fetað í fótspor Hólmara og mörg önnur eru að undirbúa aukna flokkun. Það er því ekki að ósekju að önnur sveitarfélög líta til Stykkishólms þegar talið berst að flokkun. Stykkishólmur verður alltaf sveitarfélagið sem ruddi brautina og tók flokkunina alla leið.

Íslenska gámafélagið