Tökur hefjast á heimildamynd um verndun háhyrninga við Snæfellsnes


Þann 15. apríl næstkomandi hefja félagasamtökin Orca Guardians, sem eiga rætur að rekja til Grundarfjarðar, tökur á Snæfellsnesi vegna heimildamyndar sem ber vinnuheitið „Háhyrningar við Vesturland og verndun þeirra: Breytt skynjun heimamanna á topprándýri hafsins”.
Í heimildamyndinni, sem verður bæði á íslensku og ensku, verður áhersla lögð á að sýna hvernig skoða og rannsaka má háhyrninga með velferð þeirra í huga. Einnig verður litið á þróun verndarstarfs háhyrninga í íslensku samfélagi og hvaða breytingar hafi átt sér stað í nærsamfélaginu frá komu háhyrninganna árið 2010.
Markmið heimildamyndarinnar er að hvetja fólk til að bregðast við mengun og truflun við villt dýralíf, jafnt í heimahögum og á alþjóðavettvangi, og sýna fram á mikilvægi verndarstarfs. Fólki úr öllum kimum samfélagsins, sem telur sig hafa tengsl við háhyrninga, er boðið til viðtals, annars vegar í formi skipulagðra einstaklingsviðtala og hins vegar með þátttöku í opnum viðtölum.
Heimildamyndin verður framleidd af Orca Guardians í samstarfi við Xu Media Production og Wild Sky Productions og sameinar því fjölþjóðlegt kvikmyndateymi frá Íslandi, Kína/Kanada, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Tökur standa til 6. maí 2018 og eru styrktar með fjármagni frá National Geographic Society og aðstöðu og vinnuframlagi frá hvalaskoðunarfyrirtækinu Láki Tours.