Þriðjudagur , 19. febrúar 2019

Töltmót HEFST – hluti af mótaröð Snæfellings

Hesteigendafélag Stykkishólms hélt töltmót miðvikudaginn 28. mars sl. en mótið var annað mótið af þremur í mótaröð Hestamannafélagsins Snæfellings. Fyrsta mótið var haldið í Ólafsvík 16. mars sl. og þriðja og síðasta mótið verður í Grundarfirði miðvikudaginn 18. apríl nk. Mótaröðin var sett á í þeim tilgangi að efla og auka samstarf á milli félaganna innan Snæfellings og nýta um leið þá stórgóðu aðstöðu sem skapast hefur með reiðhöllunum sem risið hafa á svæðinu.
Mótið í Stykkishólmi fór fram í nýrri reiðhöll félagsins að Fákaborg og tókst með eindæmum vel. Skráningar voru framar vonum, eða 55 talsins og skiptust þannig að í pollaflokki voru 14 skráðir, í flokki 17 ára og yngri voru 8, í flokknum minna vanir voru 20 og í flokknum meira vanir voru 13.

Úrslit í flokknum Meira vanir, frá vinstri: sigurvegarinn Jón Bjarni, Fjóla Rún, Fanney, Ólafur og Högni.

Allir keppendur í pollaflokki fengu verðlaunapening frá Hestamannafélaginu Snæfellingi, enda allir sigurvegarar þar.
Vinningar í öðrum flokkum voru í boði nokkurra styrktaraðila og fá eftirfarandi fyrirtæki kærar þakkir fyrir frábæran stuðning: Lífland Borgarnesi, KB Borgarnesi, Ástund, Búvörur SS, JGR Borgarnesi, MS Búðardal, Würth, Friðborg harðfiskur og B.Sturluson.
Öllum þeim sem komu að undirbúningi og skipulagi mótsins er þakkað fyrir sitt framlag, einnig fá keppendur og aðrir gestir kærar þakkir fyrir þátttökuna og komuna.

Íris Huld Sigurbjörnsdóttir f.h. HEFST