Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Tvíréttað frá Badda

Takk takk Bjössi-Galdró-Bensó. Vindum okkur beint að efninu. Ekki er ég mikill Lax-maður, en það er einn einfaldur réttur sem hefur heillað mig síðustu árin. Þetta er hráefnið sem til þarf:

Lax eða Bleikja (3 bitar).

2 rauð epli.

Dijon Sinnep, helst þetta sem er frá Maille.

Worcestershire Sósa frá Heinz

Aðferðin:

Laxinn eða Bleikjan hreinsuð og látinn liggja á roðinu á álpappír, smurt með Dijon sinnepinu, bara gott lag af því, giska á svona eina góða matskeið ofan á bita. Eplin skorinn í þunnar skífur og settar ofan á sinnepið og svo er helt yfir þetta allt Worcestershire sósunni, svona c.a. góðum slatta, sjá mynd. Álpappírnum lokað mjög vel og ýtt þétt að því sem er inn í og sett í mót, því það gæti lekið frá þessu. Inn í heitan ofn (190°) og í 20-30 mín fer eftir ofni. Ath að einn biti í hverja álpappírs-pakkningu.

Borið fram með salla af nýju salati, en ég er oft á því að þetta sé bara betra eitt og sér 😉

Mjög einfaldur réttur.

Seinni rétturinn er í líka mjög einfaldur, þetta er hráefnið:

Lambaskrokkur, c.a. 16.3kg. kostar c.a. 1.100kr kílóið hjá SS.

Matarolía eftir þörfum, c.a. hálf flaska.

Fínt salt, slatti.

Aðferð:

Lambið fengið stimplað t.d. beint frá SS, þarf að panta með 4 til 5 daga fyrirvara, því það er frosið. Látið hanga og þiðna, þegar allt frost er farið er það látið hanga áfram og makað út í matarolíu og nuddað á það fína saltinu, muna bara að hafa eitthvað undir, því það fer slatti á gólfið við þessa aðferð. Þetta er gert tvisvar eða tvo daga í röð, svo á fjórða degi er því skellt á grillið. Kolum skellt á grillið og látið hitna, lambið rúllar svo í 3 tíma en það þarf að bæta kolum á c.a. 20-30mín fresti. Meðan á þessu er gott að hafa gott sæti og bjór í hönd, því þetta er alveg dáleiðandi og eins og versta sápuópera í imbakassanum, maður bíður alltaf eftir að eitthvað nýtt gerist við hvern hring sem lambið snýst um sjálfan sig.  Eftir c.a. rúma tvo tíma er gott að standa upp, teygja úr sér og spreyja það með H2O, hreinu íslensku vatni, þá verður til „krispí“-húð. Nú eftir c.a. 3 tíma eða þegar maður er orðin leiður á sápuóperunni, er grillið stoppað og lambið snætt. Gott að hafa það einfalt, bara heimabakað brauð að hætti heimasætunnar eða pylsubrauð frá Myllunni og smá sósa með, það er eiginlega alveg sama hvaða sósa, því íslenska lambið klikkar ekki.

Oft verður töluverður afgangur af heilu lambi ef fátt er um fólkið, þá er það bara bitað niður og sett í minni pakkningar og fryst. Svo er hægt að nota það í allskonar lamba rétti síðar.

Einfaldara getur það ekki orðið.

Að lokum vill ég skora á nágranna mína og gleði-pillu-hjónin Sólrúnu Ingu „Bensó“ Ólafsdóttur og Hjört „Kæt“ Eiríksson  því ég veit að þeim er margt til lista lagt í eldhúsinu og eru því vel til fundinn til að taka við upp-skriftar-pennanum og skellt mat saman í word-skjal. Takk takk.

Baddi