Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Um slysavarnir barna – að gefnu tilefni

Nýlega var rætt um á fundi foreldrafélags Leikskólans þá miklu slysahættu sem er við gangbrautina við leikskólann sem liggur yfir þjóðveginn út úr bænum. Ég sat nú ekki þennan fund enda bara nýflutt heim og hef ekki ennþá hlammað mér í nein forystusæti í nefndum, en hef engu að síður velt þessu oft fyrir mér, hversu slæm staðsetning leikskólans er með þetta að gera. Við höfum líklega öll séð ökumenn á ofsahraða keyra þarna fram hjá og virðast þeir gefa bara allt í botn um leið og ekið er fram hjá Bensó. Mögulega veit utanbæjarfólk og erlendir ferðamenn ekki af þessari gangbraut og umferð gangandi vegfarenda með börn á þessu svæði. Mér skilst að oft hafi litlu mátt muna að illa færi sérstaklega þegar tekið er fram úr bílum sem stoppa samviskusamlega fyrir vegfarendum á leið yfir gangbrautina.

Ég er nýlega flutt aftur í Hólminn og mér fylgja eitt 9 ára barn og eitt 5 ára. Að ógleymdum pabbanum sem er að nálgast fertugt en það gildir einu. Hann kann að bjarga sér að mestu. Mér þykir óendanlega gott að vera komin heim og sérstaklega barnanna vegna.

Á stór höfuðborgarsvæðinu þar sem við bjuggum þurfti vissulega að hafa meira ofan af fyrir þessum greyjum og fylgja þeim hvert fótmál út úr húsi ef við vildum ekki læsa þau inni alla daga í heilaslævandi veröld sjónvarpsgláps. Hætturnar voru jú alls staðar. Hér heima er hægt að henda þeim út að leika sér nánast áhyggjulaust og vinir til að leika sér við í næsta nágrenni. Mikil nánd og góð samskipti milli foreldra. Og hversu yndislegt er að sjá þessa ofsafengnu fjölgun barnafólks í bænum, það er nánast verið að punga út börnum í öðru hverju húsi. Blómstrandi samfélag. En þessu fylgir líka að fleiri börn eru að leik í bænum, leikskólinn okkar hefur tútnað út og sprungið og sú þróun breytist líklega ekki með þessum linnulausu barneignum er það nokkuð?

En mig langar aðeins að ræða um slysavarnir barna að þessu tilefni. Slysum á börnum hefur fækkað um 50% á síðustu 20-30 árum og dauðaslysum fækkað um 65% sem er býsna góður árangur. Það er ekki langt síðan að börn voru höfð beltislaus í bílum bæði innanbæjar og utanbæjar, og það er beinlínis stutt síðan það voru sett belti í rútur og strætisvagna.
Öryggi á leikvöllum barna eru oft fyrir neðan allar hellur og þarf meira eftirlit og viðhald að setja í þann pakka. Maður var ekki mikið að spá í þessum keðjum á rólunum í gamla daga, bara rólaði sér, henti sér nokkrar ferðir niður ískrandi rennibrautir sem héngu á hjörunum, fór svo bara heim í drekkutíma, kakómalt og kex.
Nú ætti að vera kominn einhvern búnaður utan um keðjurnar á rólunum. Þetta er ekki tæmandi listi en vissulega spáði maður lítið í þessu þá. En því miður virðist þurfa að alvarlegt slys verði til að eitthvað sé gert í hlutunum. Vitur eftir á og allt það.

Slys eru ekki tilviljun, því miður virðast þau vera lögmál sem við höfum sætt okkur við.
Alþjóðaheilbrigðisstofnun (World Health Organization, WHO) hefur lagt mikið í eflingu slysavarna síðustu 30 ár og samkvæmt þeim ætti að vera hægt að fyrirbyggja 98% slysa. Árið 1994 hættu WHO að nota hugtalið “accident prevention” yfir slysavarnir og fóru að nota “injury prevention” og flokka það niður í “unintentional injury” og “intentional injury” sem skilgreinist að sjálfsögðu sem ofbeldi. WHO hafa reynt að fá önnur ríki til að endur-skilgreina þessi hugtök líka en Íslendingar hafa ekki gert það enn. Börn á Íslandi fá vissulega fræðslu um slysavarnir í skóla en almennt er lítill áhugi á slysavörnum hjá íslenskum stjórnvöldum, mögulega sjá þeir ekki tengingu milli fjölda slysa og heildarkostnaðar þeirra í heilbrigðiskerfinu. Slysavarnir ganga út á að foreldrar viti af þroska og getu barna sinna og geti farið eftir viðmiðum svo börn geti leikið sér frjáls.

Oft er talað um að börn séu öruggari úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu.
Staðreyndin er hins vegar sú að flest slys á börnum verða úti á landi, þar er jú meira frelsi til að leika sér og eftirlit með þeim minna. En það eru margir þættir sem spila inn í. Í stuttu máli eru algengustu slys barna fallslys og drengir eru líklegri til að slasa sig en stúlkur. Slys má yfirleitt rekja til eftirlitsleysis eða agaleysis. Oft vita foreldrar ekki hvenær á að stoppa börnin af, þess vegna þekkja þau ekki mörk sín.
Mikilvægt er að foreldrar banni ekki börnum að leika sér þó einhver slysahætta sé fyrir hendi. Förum nú ekki að vefja þeim inn í bómul og læsa þau inni. Ef að barn dettur úr tré er óþarfi að láta höggva tréð niður, betra er að kenna barninu hvernig á að umgangast tréð og fræða það um hættuna.

Börn hafa ekki öll skilningarvit sín fullþroskuð fyrr en um 12 ára aldur, fram að því geta þau ekki varað sig sjálf á öllum hættum. Gegnum árin hafa þau aflað ýmsum upplýsingum og lært af mistökum en geta ekki fullvarað sig fyrr en þessum þroska er náð.
Sjónin er síðasta skilningarvitið sem þroskast að fullu hjá börnum. Fram að því hafa þau rörsýn, sjá ekki út undan sér eins og fullorðnir og þess vegna verða þau að líta til beggja hliða við umferðargötur til að fullvissa sig um að enginn bíll sé að koma. Börn geta ekki heyrt hvaðan hljóð kemur fyrr en um 8 ára aldur. Þau geta heyrt bíl vera að koma en skynja ekki úr hvaða átt, hversu langt hann er í burtu eða hversu hratt hann keyrir. Þess vegna geta ökumenn ekki ætlast til þess að barnið fatti að hlaupa í hina áttina, frá umferðinni.

Í hvert einasta skipti sem ég hef sótt mín börn í skóla og leikskóla, þar sem allt er morandi í börnum, hef ég það hugfast áður en ég bakka löturhægt út úr stæðinu að 2-3 ára börn sjást ekki í hliðarspeglunum en þau gætu verið að væflast fyrir aftan bílinn.
Mér finnst það góð regla. Ég hef hitt fólk sem hefur óviljandi valdið öðrum skaða í umferðinni, ég kæri mig ekki um að vera í þeim sporum. Ekkert okkar gerir það.

Það var eitthvað rætt á áðurnefndum fundi foreldrafélagsins að það þyrfti að setja gönguljós við gangbrautina við leikskólann. Ég styð það heilshugar, og skora hér með á bæjaryfirvöld að koma því verkefni á koppinn sem allra fyrst. Það eiga ekki að þurfa að vera hræðileg fordæmi fyrir öllum breytingum í slysavörnum. Verum vitur fyrirfram. Og í guðanna bænum kæru bæjarbúar, akið á eðlilegum hraða þangað til þið eruð komin allavega framhjá kirkjugarðinum.

Fræðilegar upplýsingar í þessum pistli eru fengnar frá Herdísi L. Storgaard, hjúkrunarfræðingi og sérfræðingi á sviði slysavarna barna, en hún hélt frábæran fyrirlestur um þessi málefni þegar ég var í hjúkrunarfræðinámi.

Ég vona að þetta innlegg verði einhverjum til gagns, jafnvel gamans. Góðar stundir.

Anna Margrét Pálsdóttir