Ungir Hólmarar nær og fjær.

Nú styttist í að bæjarstjórnarkosningar fari fram. Ég er, ásamt 13 öðrum einstaklingum, í framboði fyrir D-lista sjálfstæðismanna og óháðra og tilheyri yngri hópnum á listanum.

[mynd]Nú styttist í að bæjarstjórnarkosningar fari fram. Ég er, ásamt 13 öðrum einstaklingum, í framboði fyrir D-lista sjálfstæðismanna og óháðra og tilheyri yngri hópnum á listanum. Mitt líf hefur þróast þannig að ég hef ílengst hér í Hólminum og er búin að koma mér fyrir í mínu húsi og stofna mitt eigið fyrirtæki, auk þess sem ég er í starfi hjá sýslumanns-embættinu. Það var þó aldrei niðurneglt að hér yrði ég til frambúðar þegar ég hóf mitt háskólanám, en þar sem ég fékk vinnu sem ég get nýtt mitt nám í, sem viðskiptafræðingur frá háskólanum á Bifröst, og starfa í dag sem skrifstofustjóri, auk þess sem við vinkonurnar fórum út í að opna líkamsræktarstöðina Átak, þá er ég hér enn og sé ekki að ég sé nokkuð á leiðinni í burtu úr þessu. Nema eitthvað áhugavert væri í boði eins og skrifstofustjórastarf á fjárreiðusviði Háskóla Íslands, þá mætti skoða það.
      Ég hef lengi haft áhuga á pólitík, ég sit í stjórn Sifjar, félagi ungra sjálfstæðismanna í Stykkishólmi og tók þátt í stofnun Miðgarðs sem er félag ungra sjálfstæðismanna á
Bifröst. Mér finnst mjög spennandi að nú sé mitt tækifæri komið til að gera mitt besta til að hafa áhrif á gang mála hér í bæjarpólitíkinni.
     
Ég er ein af þeim sem kom heim eftir háskólanám. Það eru því miður ekki nógu margir sem hafa gert það hingað til en vonandi á okkur eftir að fjölga. Það sem ég hef áhuga á er að gera bæjarfélagið okkar að áhugaverðum stað þegar ungt fólk er að ákveða hvar það vill setjast að. Við erum í samkeppni við stærri bæjarfélög sem líta út fyrir að hafa meira í boði en Stykkishólmur. Stykkishólmur hefur upp á ótrúlega margt að bjóða miðað við bæ af þessari stærðargráðu. Við þurfum ekki nema að líta lengra út á Snæfellsnes til að átta okkur á því. Bara svo tekin sé sem dæmi aðstaða til íþróttaiðkunar hér í bæ, og sundlaugin sem margir öfunda okkur af.  Ég hef verið það heppinn að ég hef fengið góð tækifæri hér í Stykkishólmi, en sum tækifæri verður maður þó að skapa sér sjálfur, því það er fátt sem kemur upp í hendurnar á manni án þess að haft sé fyrir því.  Mér finnst mikilvægt að unnið sé að uppbyggingu í samfélaginu okkar og að ungu fólki sé vísuð leiðin en það ekki matað og það aðstoðað með þær hugmyndir sem það vill koma með í bæinn okkar.  Unga fólkið er framtíðin og það er unga fólkið sem við verðum að virkja til að fá ný og skemmtileg sjónarhorn á hlutina. 

      Þau tækifæri sem ég hef fengið og það umhverfi sem ég hef getað framkvæmt þau í er eitthvað sem ég hef áhuga á að hlúa að og byggja upp og það er ástæða þess að ég sagði já við því að taka sæti á D- lista fyrir þessar kosningar. Mér finnast spennandi þær breytingar sem eru í vændum, D-listinn er mannaður af áhugasömu, fersku og nýju fólki. D-listinn er með fólk úr öllum áttum, fólk sem á það allt sameiginlegt að hafa starfað í nefndum og ráðum, hvort sem er í íþróttalífinu eða öðru, og það finnst mér stór kostur. Það segir mér að þetta er fólk sem er tilbúið til að leggja sig fram og vinna vinnuna sem þarf í bæjarpólitíkinni. Mitt nafn er allavega ekki á þessum lista bara til að fylla upp í tómarúm, ég vil vera með og geta átt kost á því að hafa áhrif á þróun umhverfis okkar. Ég er málsvari ungs fólks sem vill lifa og læra í Hólminum og heiti því að ég mun starfa að heilindum að þeim málefnum sem vinna þarf að.


                                                                       Berglind Þorbergsdóttir,

                                                                       Skipar 8. sæti D-listans.