Unglingaskipti Lions

Erlend ungmenni í heimsókn á Snæfellsnesi
Lionsklúbbarnir í Stykkishólmi fengu það verkefni að taka þátt í ungmennabúðum í samstarfi við Lionsklúbbana á Nesinu. Dvöldu 12 ungmenni frá jafn mörgum löndum í 2 vikur með aðsetur í Ólafsvík. Í okkar hlut kom að sjá um dagskrá fyrir hópinn í tvo daga. Fyrri daginn var farið í Flatey þar sem Hörpukonur tóku á móti unglingunum, sýndu þeim eyjuna og buðu í mat. Daginn eftir fór karlaklúbburinn með hópinn um Helgafellssveit og í Stykkishólm. Á dagskrá var heimsókn í Bjarnarhöfn,ganga á Helgafell, og farið í Stykkishólmskirkju, Fransiskus, Vatnasafn og sundlaugarskemmtun.
Hádegismatur í bakaríinu og grillveisla í skógrækti í umsjón Sumarliða. Veðrið lék við gesti okkar báða dagana þar sem hitastigið fór yfir 20 gráður. Það er ekki slæmt að geta boðið upp á svona veður. Unglingarnir voru alsælir með móttöku klúbbanna og fóru frá okkur með góðar minningar. Gott og gefandi verkefni.
Gestgjafar vilja koma fram þakklæti til þeirra sem styrktu okkur og veittu aðstoð: Sæferðir ehf, Umf. Snæfell, Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn, búendur á Helgafelli, Nesbrauð ehf, Stykkishólmsbær og Frystihúsið í Flatey.