Uppbygging skíðasvæðis á Snæfellsnesi

Mynd fengin af Facebooksíðu Skíðasvæðisins.
Mynd fengin af Facebooksíðu Skíðasvæðisins.

Skíðasvæði Snæfellsness – Aðsend grein

Fyrir rétt um 9 mánuðum kom saman hópur skíðaáhugamanna á Snæfellsnesi til þess að ræða um uppbyggingu á sameiginlegri skíðalyftu fyrir alla Snæfellinga hér á Snæfellsnesi. Óskað var eftir hugmyndum að hentugu svæði og farið var í undirbúningsvinnu við að kynna sér þau svæði frekar.

Mörg spjót beindust að brekkunum fyrir ofan Grundarfjörð þar sem veðurskilyrði þar eru oft góð og mikill snjór. Eftir nokkra umræðu og þegar í ljós kom að lyftan í Grundarfirði var í nothæfu standi varákveðið að hefjast handa við að endurbyggja skíðasvæðið í Grundarfirði til að byrja með, en meðmöguleika á frekari uppbyggingu annars staðar þegar fram líða stundir.

Það var þó ljóst að enduruppbygging á skíðasvæðinu í Grundarfirði yrði mikil og kostnaðarsöm vinna og því var sett upp þriggja ára áætlun hvað varðar innkaup og uppbyggingu. Hópurinn fékk strax góðar undirtektir og fann fyrir miklum meðbyr frá fólki úr öllum áttum og svo virtist sem allir væru til í að hjálpa. Haldnir voru opnir fundir og farið af stað með fjáröflun til þess að kaupa nýja diska á lyftuvírinn, því allir gömlu diskarnir voru komnir til ára sinna. Þessi söfnun gekk vonum framar og þökkum við öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem lögðu okkur lið.

Búið er að kaupa nýja diska á alla lyftuna og nokkra til vara, en þeir kostuðu um 1.700.000 kr. hingað komnir. Einnig er búið að kaupa nýjan vír í lyftuna og fengum við góða aðstoð við það, en vírinn kostaði um 300.000 kr. Búið er að kaupa nýjar reimar í lyftumótorinn og senda hjólin úr miðmastrinu í yfirhalningu hjá gúmmívinnslu og má því segja að búið sé að endurnýja nánast alla lyftuna.

Hvað skíðaskálann varðar þá höfum við fengið fjárstyrk til að endurbyggja hann, klæða að utan og laga pallinn. Búið er að skipta um gler í gluggum og smíða einn nýjan glugga. Þá er búið að tengja rennandi vatn í skálann og setja hitaþráð við inntakið svo hægt verði að nota salernið.

Sportvík kemur færandi hendi.
Sportvík kemur færandi hendi.

Síðastliðinn sunnudag fengum við svo heimsókn frá fjölskyldu sem rekur verslunina Sportvík á Blönduósi, en þau eru að flytja inn og selja allt sem tengist skíðaíþróttinni og öryggisbúnað. Það var mjög áhugaverð og gagnleg heimsókn og að kynningunni lokinni færðu feðginin í Sportvík skíðdeildinni okkar 40m af öryggisneti að gjöf ásamt stöngum og bor.

Nýjustu fréttirnar eru svo þær að nú er verið að ganga frá kaupum á notuðum snjótroðara og er hann væntanlegur á næstu dögum. Við erum alveg ótrúlega sátt með það hvað þetta hefur allt saman gengið vel og að við séum að verða búin að ljúka við og staðgreiða allt það sem var á þriggja ára áætluninni. Það styttist því í það að við munum boða til fundar á ný og setja okkur ný markmið og ræða málin fyrir komandi vetur, því það er nóg eftir að gera.

Við erum mjög stórhuga hvað framtíðina varðar og við hlökkum til að sjá sem flesta Snæfellinga í brekkunni í vetur. Hægt er að fylgjast með því sem er að gerast á Facebook síðu Skíðasvæðis Snæfellsness.

Kveðja

Stjórn skíðadeildar