Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Vesturlandi

Þökkum þeim sem höfðu tök á að taka þátt í uppskeruhátíðinni með okkur fyrir frábæran dag og skemmtilegt kvöld. Við þökkum Snorrastofu -Reykholti fyrir að lána okkur gamla Héraðsskólann endurgjaldslaust og Eddu Arinbjarnar fyrir góða fundarstjórn á vinnufundi FMV og þeim sem héldu kynningar á fundinum. Við fengum frábæra gestafyrirlesara og þökkum við þeim fyrir að leggja leið sína í Reykholt og eiga góða stund með okkur. Bryndís Geirsdóttir og Guðni Páll frá fyrirtækinu Búdrýgindi kynntu gerð menningarmyndbands sem þau eru að vinna fyrir Markaðsstofu Vesturlands með styrk frá Menningarráði Vesturlands og Rarik.  Þá bentiAndri Snær rithöfundur í sínu erindi okkur á að við sitjum á gullnámu en þar var hann að tala um vannýtt tækifæri í ferðaþjónustu og Snorra Eddu. Farið var í frábæra kynnisferð í uppsveitir Borgarfjarðar þar sem ferðaþjónustuaðilar í Húsafelli tóku á móti hópnum með frábærum veitingum, Páll steinsmiður var heimsóttur og svo var endað á Kolstöðum en þar hefur Helgi í Lumex byggt upp skemmtilega aðstöðu fyrir listamenn. Þar er verkum Páls gerð góð skil. Við viljum þakka Helga og Páli ásamt þeim heimamönnum í Húsafelli sem komu að skipulagi og gestaviðgjörningi kærlega fyrir frábærar móttökur. Þá þökkum við Páli Brynjarssyni bæjarstjóra og Borgarbyggð fyrir að bjóða uppá fordrykkinn í Reykholti.

Andri Snær Magnason
Andri Snær Magnason
Snorrastofa í Reykholti fékk viðurkenninguna Höfðinginn 2013.  Bergur Þorgeirsson
Snorrastofa í Reykholti fékk viðurkenninguna Höfðinginn 2013. Bergur Þorgeirsson
Páll á Húsafelli
Páll á Húsafelli

Eins og áður hefur verið kynnt er uppskeruhátíðin samstarfsverkefni Ferðamálasamtaka Vesturlands FMV og Markaðsstofunnar. Í fyrra veittu FMV viðurkenninguna Höfðingjann á uppskeruhátíðinni en þá hlutu Sæferðir stærstu viðurkenninguna. Í ár ákvað stjórn FMV að veita Snorrastofu Höfðingjann fyrir að vera í fararbroddi í ferðaþjónustu á Vesturlandi. Heimamarkaðsbúðin Ljómalind á Sólbakka fékk hvatningarverðlaun 2013. Við óskum aðstandendum Snorrastofu og Ljómalindar innilega til hamingju með viðurkenninguna og þökkum stjórn Ferðamálasamtaka Vesturlands fyrir samstarfið með uppskeruhátíðina.

Markaðsstofa Vesturlands