Úr öndvegi í Lönguvitleysu

Síðastliðinn miðvikudag, 17. maí, undirritaði bæjarstjóri fyrir hönd bæjarstjórnar Stykkishólms samkomulag við Artangel í Bretlandi og listakonuna Roni Horn um langtímaleigu á Bókhlöðu Stykkishólms. Menntamála- og samgönguráðuneyti komu einnig að samningnum. Væri allt með felldu hefði þetta átt að vera hátíðleg gleðistund fyrir íbúa bæjarins.

Síðastliðinn miðvikudag, 17. maí, undirritaði bæjarstjóri fyrir hönd bæjarstjórnar Stykkishólms samkomulag við Artangel í Bretlandi og listakonuna Roni Horn um langtímaleigu á Bókhlöðu Stykkishólms. Menntamála- og samgönguráðuneyti komu einnig að samningnum. Væri allt með felldu hefði þetta átt að vera hátíðleg gleðistund fyrir íbúa bæjarins. Svo varð ekki, því miður.
Ég er einn örfárra sem fylgdist með þessu frá upphafi og naut þeirra forréttinda að sitja beggja vegna borðs í samningamálum og í fullum trúnaði. Tvö og hálft ár tæp eru frá því að ferlið hófst og loks síðsumars 2005 voru hugmyndirnar kynntar á opnum fundi að kröfu Artangel í Ráðhúsinu þar sem ég var fundarstjóri í góðri trú um að vel færi.
Ástæða þess að ég setti mig inn í málin var ekki sú að ég þekkti til Roni Horn og að við eigum sameiginlega kunningja, heldur spratt áhugi minn af þeirri einföldu ástæðu að ég sá í hendi mér að Vatnasafn í Bókhlöðunni myndi vekja safnamál í Stykkishólmi af langþjáðum doða, væri athyglisvert safnainnlegg og gæti orðið bænum til heilla. Hitt var þó ennþá mikilvægara – að standa vörð um Amtsbókasafn Stykkishólms. Þess vegna sat ég fundi að beiðni beggja aðila; skiptist á skoðunum við þá og allir voru á einu máli um að framtíð og velferð Amtsbókasafnsins ætti að sitja í fyrirrúmi.
Fyrstu viðbrögð mín við hugmyndum um Vatnasafn voru að hvetja bæjarstjóra til þess að fá bæjarstjórn að skipa sérstaka nefnd, bæjarfulltúa og áhugafólks, sem ynni að undir-búningi þess að flytja bóka-safnið í framtíðarhúsnæði en jafnframt að nýta stórkostlegt tækifæri til að móta miðbæ í anda byggingarhefðar sem Stykkishólmur er þekktur fyrir á landsvísu. Þetta er skjalfest. Því miður rann tækifærið í sand. Jafnvel bæjarfulltrúar vissu lítið um þetta stórmál fyrr en löngu síðar.
Löngu eftir að hugmynd um Vatnasafn var ýtt úr vör varð samt til áhugahópur um söfn og framtíðarsýn fyrir miðbæ Stykkishólms sem byggðist á byggingarhefð; nýjum og ferskum hugmyndum um virka safnastarfsemi – og betri bæ. Í hópnum voru bræðurnir Haraldur og Steinþór Sigurðssynir, Rakel Olsen, Aldís Sigurðardóttir, Ellert Kristinsson, Sigurlína Sigurbjörnsdóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir og Jón Svanur Pétursson. Þarna kynnti Haraldur hugmynd sína um að koma eldfjallasafninu upp í Stykkishólmi. Öll höfðu þau heyrt ávæning um Vatnasafnið og flutning Amtsbóka-safns. Jafnvel þá gat ég fátt sagt, bundinn sérkennilegum trúnaði um að þegja. Hópurinn sendi bæjarstjórn bréf og Steinþór kynnti hugmyndir okkar lítillega í ágætum pistli í Stykkishólms-Póstinum s.l. sumar. Viðbrögð bæjarstjórnar voru afar jákvæð og svo virtist sem hún stefndi að því að gera þær að sínum. Þetta fannst mér mikilvægt og framúrskarandi.
Þagnargildið um Vatnasafnið varð hins vegar vandamál vegna þess að aðgerðarleysi og tómlæti náði yfirhöndinni. Menntamálaráðuneyti var umboðsaðili og umsemjandi  Stykkishólmsbæjar um leið og Stykkishólmur var í samningum við ráðuneytið. En hér heima var engin undirbúningsvinna í gangi né skoðanaskipti.  Aðstandendur Vatnasafns höfðu skoðað Bókhlöðuna og gefið til kynna hvað væri í vændum en bæjaryfirvöld höfðu ekki haft fyrir því að ræða hugmyndirnar við forstöðumann bókasafnsins – ekki fyrr en á haustdögum 2005 þegar tilskipun lá í loftinu um að rýma húsið. Safna- og menningarmálanefnd var álíka vel upplýst en loks þegar bæjarstjórn Stykkishólms fjallaði um málið varð fyrst reimt í Hólminum.
Þegar Safna- og menningar-málanefnd frétti af þessum fimleikum á bak við tjöldin sem í raun voru orðnir svo mótaðir að ekki varð aftur snúið og samningur lá fyrir (en ekki aðeins drög eins og Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri fullyrti í svari til Rakelar Olsen á dögunum) tók nefndin á sig myndarlega rögg og sendi bæjarstjórn prýðilegt bréf þar sem hún tíundaði frumskilyrði þess að bókasafnið flytti úr eigin húsnæði. En varla var blekið þurrt á undirritun formanns nefndarinnar þegar hann var komin í andstöðu við nefndina og eigin yfirlýsingu.  Ægir Jóhannsson nefndarmaður sem hafði ritað í Stykkishólms-Póstinn ágætan pistil 17. nóv. 2005, einskonar undanfara samþykktarinnar, axlaði ábyrgð og sagði sig úr nefndinni því bæjarstjórn hundsaði tillögur Safna- og menningarmálanefndar.
Víkur þá sögu að stórhug bæjarstjórnar.
Niðri í Plássi stóð eitt sinn mannvirki sem Langiskúr nefndist. Hann er til á mynd sem Ljósmyndasafn Stykkishólms varðveitir. Lítil prýði var af honum og enn minni eftirsjá og þó reis á þeim grunni bygging sem alla tíð hefur verið talin verri og meiriháttar skipulags- og byggingarslys: vöruskemma Kaupfélags Stykkishólms sem nú hýsir verslun Skipavíkur. Slíkur þyrnir var skemman í augum fólks að hún fékk viðurnefnið Langavitleysa. Það á einkar vel við núna að troða Amtsbóka-safninu í Lönguvitleysu – lélegt húsnæði og rými sem er næstum því helmingi of lítið.
Löng saga verður ekki sögð í stuttri grein en ósköp varð framvindan lítilsigld og marklaus, jafnvel heiftúðug á köflum. Því höfum við kynnst sem höfum haft aðra sýn á framtíð þessa merka bókasafns, menningar- og byggingarafleifðar Stykkishólms. Þau vinnubrögð eru afleit í litlu samfélagi.
Bókasöfn eru mínar fræðastofnanir og hluti af atvinnuumhverfi mínu. Að auki þarf ég iðulega á mikilli og tímafrekri aðstoð að halda við leit að heimildum. Amtsbókasafn Stykkishólms er frekar gamaldags vegna þess að það hefur lifað við fjársvelti og lítinn metnað bæjaryfirvalda í áratugi en safnið varðveitir margan dýrgrip í afkimum. Þrátt fyrir þessa annmarka hefur þjónustan verið framúrskarandi og hefur sannað fyrir mér hvað lítið safn getur verið öflug stofnun ef fagmennska er fyrir hendi. Þess vegna harma ég það slys sem hér hefur átt sér stað af kappi en engri forsjá og hvorki skilningi á starfsemi né gagnsemi bókasafns.
Við val á nýju húsnæði fyrir bókasafn hentaði ekki að hlýða á eina fagmanninn í Stykkishólmi sem var áheyrnarfulltrúi. Bæjarfulltrúar tuggðu hver upp í annan að vel ætti að gera við bókasafnið en verkin tala öðru máli. Fúsk hentar illa í menningarsetri eins og bókasafni og því gat niðurstaðan ekki orðið önnur en sú að forstöðumaður segði stöðu sinni lausri. Sama gerði og heiðurskonan Birna Pétursdóttir.
Ég hef fylgst með safnamálum í Stykkishólmi um áratugsskeið; setið í safnanefnd og verið formaður starfsnefndar um Ljósmyndasafn Stykkishólms og satt að segja hefur mig lengi undrað áhuga- og stefnuleysi í safnamálum. Á stundum hefur það ekki verið mannbætandi að fara fram á það við bæjaryfirvöld að söfnum sé sinnt af alúð og ábyrgð – þó ekki væri til annars en að uppfylla kröfur í afhendingarbréfi Ljósmyndasafns.
Á sjó eru vaktaskipti í brúnni alveg sama hve ágætir menn þar standa. Nauðsynlegt er að hvíla fólk svo það endurnýi krafta sína og lífsgleði. Amtsbókasafnsklúðrið er menningarslys og enginn veit hve alvarlegt það verður en úr þessu fer það eftir því hver á heldur. Ég óska Hólmurum gæfu og álít löngu tímabært að þeir skipti um vakt í brúnni.

Guðmundur Páll Ólafsson