Útskrift Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Laugardaginn 15. desember brautskráðust sex nemendur frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Af félags- og hugvísindabraut brautskráðust Anna Lilja Ásbjarnardóttir, Eva Laxmi Davíðsdóttir og Jakob Breki Ingason. Af náttúru- og raunvísindabraut brautskráðist Laura María Jacunska og af opinni braut til stúdentsbrautar brautskráðust Ágúst Nils Einarsson Strand og Þorbjörg Erna Snorradóttir sem sá sér ekki fært um að vera viðstödd athöfnina.

Athöfnin hófst á því að Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga brautskráði nemendur og flutti ávarp. Sólrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari afhenti síðan nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Sveitarfélögin sem standa að skólanum gáfu viðurkenningar í formi bókagjafa ásamt Landsbankanum.

Anna Lilja Ásbjarnardóttir fékk viðurkenningu fyrir námsárangur sinn í sálfræði og þýsku. Jafnframt var hún með hæstu meðaleinkunn útskriftarnema og hlaut hún peningaverðlaun frá Landsbankanum og bókagjöf frá sveitafélögunum.

Eva Laxmi Davíðsdóttir fékk viðurkenningu fyrir námsárangur sinn í kynjafræðum og þýsku. Laura María Jacunska fékk viðurkenningu fyrir námsárangur sinn í dönsku og Þorbjörg Erna Snorradóttir fékk viðurkenningu fyrir námsárangur sinn í félagsfræðum.

Haukur Páll Kristinsson, útskrifaður nemandi fékk til liðs við sig félaga sinn Einar Bergmann og sáu þeir um tónlistaratriði við athöfnina með stakri prýði.

Hólmfríður Friðjónsdóttir þýskukennari flutti kveðjuræðu kennara og starfsfólks, Guðrún Magnea Magnúsdóttir flutti ræðu fyrir hönd 10 ára stúdenta og Laura María Jacunska hélt kveðjuræðu nýstúdenta.

Að lokum sleit skólameistari skólanum í 15. sinn og bauð stúdentum og gestum í kaffi og kökur.

Fréttatilkynning