Útskrift frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga

cropped-Fsn-0614-2Föstudaginn 27. maí braut-skráðist 21 nemandi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Af félagsfræðabraut brautskráðust þau Arna Dögg Hjaltalín, Berglind Muller, Hilmar Orri Jóhannsson, Matthías Fred Eggertsson og Sæþór Sumarliðason. Af náttúrufræðibraut brautskráðust Agnes Eik Sigurjónsdóttir, Aldís Ásgeirsdóttir, Anna Kara Eiríksdóttir, Gréta Sigurðardóttir, Íris Dögg Skarphéðinsdóttir, Jóhann Kristófer Sævarsson, Katrín Eva Hafsteinsdóttir, Kristófer Jacobson Reyes, Monika Eiðsdóttir, Silja Katrín Davíðsdóttir, Særós Freyja Guðnadóttir, Victoría Kristín Geirsdóttir og Viktoría Ellenardóttir.
Af opinni braut brautskráðist Jón Þór Eyþórsson og með viðbótarnám til stúdentsprófs útskrifaðist Hugrún Birgisdóttir. Af starfsbraut útskrifaðist Áslaug Elva Skarphéðinsdóttir.
Athöfnin hófst á því að Stórsveit Snæfellsness flutti lagið Chicken eftir Alfred Ellis. Sveitin er skipuð nemendum Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er jafnan fengin til þess að koma fram við hátíðleg tækifæri, enda er hún stolt skólans.
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari brautskráði nemendur og flutti ávarp. Í ávarpinu fjallaði hún um þann fjölda nemenda sem hafði stundað nám við skólann en á vorönn voru nemendur 204 talsins þarf af voru 61 í dreifnámi, 98 í dagskóla og 7 á starfsbraut. Hún kom einnig inn á niðurstöður ytri úttektar á skólanum sem fór fram í haust og var unnin fyrir mennta og menningamálaráðuneytið.
Skólinn og skólastarfið komu í heildina vel út í þessari úttekt og kom þar fram að almenn líðan nemenda í skólanum væri góð og jákvæð samskipti skila sér vel inní kennslustundir þar sem nemendur upplifa samskipti á þeim vettvangi sem sanngjörn og lýðræðisleg. Skólameistari gat þess einnig að útskriftin væri send í gegnum fjarfundabúnað vestur á Patreksfjörð.
Sólrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari afhenti síðan nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Sveitarfélögin sem standa að skólanum gáfu viðurkenningarnar ásamt Arion banka, Landsbankanum, Hugvísindadeild Háskóla Íslands, breska og danska sendiráðinu.
Hæstu einkunn á stúdentsprófi með 9,74 í meðaleinkunn og þar með hæstu meðaleinkunn í sögu skólans hlaut Viktoría Ellenardóttir, en hún lauk stúdentsprófi á þremur árum. Hún fékk veglega bókagjöf frá sveitarfélögunum og gjöf frá Landsbankanum. Viktoría hlaut einnig bókagjöf frá Arion banka sem viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði. Bókagjöf frá deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands fyrir góðan árangur í tungumálanámi. Bókagjöf frá sveitarfélögunum fyrir góðan árangur í raungreinum, íslensku og spænsku. Einnig fékk hún bókagjöf frá breska sendiráðinu fyrir góðan árangur í ensku.
Monika Eiðsdóttir fékk bókagjöf frá sveitarfélögunum fyrir góðan árangur í sálfræði og íslensku.
Matthías Fred Eggertsson hlaut verðlaun frá breska sendiráðinu fyrir góðan árangur í ensku og frá deild erlendra tungumála í Háskóla Íslands fyrir góðan árangur í tungumálanámi.
Katrín Eva Hafsteinsdóttir hlaut verðlaun frá sveitarfélögunum fyrir góðan árangur í þýsku.
Særós Freyja hlaut verðlaun frá danska sendiráðinu fyrir góðan árangur í dönsku.
Berglind Muller hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í list- og verkgreinum en þau verðlaun er veitt af Kvenfélaginu Gleym mér ei í Grundarfirði.
Kvenfélagið Gleym mér ei gaf einnig nýstúdentum leiðbeiningar út í lífið. En þar má meðal annars finna þvottaleiðbeiningar ásamt góðum ráðum við geymslu matvæla.
Jakob Bragi Hannesson flutti kveðjuræðu fyrir hönd kennara og starfsfólks og Berghildur Pálmadóttir flutti ræðu fyrir hönd 10 ára stúdenta.
Nýstúdentinn og fráfarandi forseti nemendafélagsins Hilmar Orri Jóhannsson hélt stór-skemmtilega kveðjuræðu fyrir hönd nýstúdenta þar sem hann kvaddi skólann og starfsfólk hans.
Að lokum sleit skólameistari skólanum í tólfta sinn og bauð gestum að þiggja kaffi og kökur.