Vegna greinar forseta bæjarstjórnar

Forseti bæjarstjórnar og oddviti H-listans Hafdís Bjarnadóttir skrifar grein í Stykkishólms-Póstinn þann 19. janúar síðastliðinn. Greinin er skrifuð sem viðbrögð við grein undirritaðs sem birtist í Stykkishólms-Póstinum þann 12. janúar. Í þeirri grein fór ég yfir mikilvægi þess að við ræðum saman um mikilvæg mál svo sem best niðurstaða fáist. Hafdís tekur út einn þátt greinarinnar sem fjallar um að ekki var vilji hjá H- listanum, sameiginlegu framboði Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins auk óháðra að eiga samtal við eigendur Bókaverzlunar Breiðafjarðar varðandi rekstur bókasafnsins. Tilboð Bókaverzlunar Breiðafjarðar má sjá hér: Tilboð og bréf vegna Hafnargötu 7

Eins og sjá má á þessu tilboði var ekkert sem var í vegi samstarfs. Bærinn hefði getað haft öll ráð og völd varðandi reksturinn ef vilji hafi verið þannig. Mátti ekki ræða.

Það er einnig rangt hjá Hafdísi að bjóða hefði þurft reksturinn út og nefnir í því samhengi að bjóða hefði þurft teksturinn út á Evrópska efnahagssvæðinu sem einnig er alrangt þar sem starfsemin er langt undir þeim viðmiðum sem þar er miðað við.

Varðandi matið á tilboðunum hefur komið fram í þessari umræðu að munurinn fólst í afhendingartímanum en við erum núna að leigja húsnæðið á um 5 milljónir á ári. Ekki var heldur gert ráð fyrir kostnaði við breytingu á deiliskipulagi sem nú er í gangi.

Að lokum líkir forseti bæjarstjórnar undirrituðum við „öfga hægrimann“. Þetta er það ósmekklegasta sem ég hef orðið fyrir á þeim tæpum 11 árum sem ég hef setið í bæjarstjórn Stykkishólms. Allir vita fyrir hvað öfga hægrimenn standa.

Að lokum vil ég taka undir orð Hafdísar með að hlutverk bæjarstjórnar sé að gæta hagsmuna bæjarbúa á jafnræðisgrunni en það hef ég einmitt gert í tæp 11 ár.

Lárus Ástmar Hannesson, oddviti L-listans