Vegna greinar Sturlu Böðvarssonar bæjarstjóra

Sturla Böðvarsson stingur niður penna þar sem hann gagnrýnir okkur bæjarfulltrúa L-listans vegna greinar sem við birtum í Stykkishólmspóstinum 14. desember síðastliðinn.  Það sem er mjög sérstakt við grein bæjarstjórans er að hann gagnrýnir okkur fyrir grein en minnist ekki orði á þau atriði sem við nefnum og erum ósátt við. Ekki var orð um þau vinnubrögð að samþykkja áætlun fyrir árið 2018 sem þá þegar var vitað að stæðist ekki og boða strax til fundar og auka við lántöku um 50 milljónir sem greiða á um mitt ár 2018. Þessi vinnubrögð eru væntanlega einsdæmi í sögu sveitarfélaga á Íslandi en telst í lagi hjá meirihluta H-listans í Stykkishólmi. Bæjarstjórinn sá ekki ástæðu, eða vildi ekki nefna þann þátt sem við nefnum og er sú staðreynd að heildarskuldir Stykkishólmsbæjar eru komnar í 2100 milljónir (fara úr 1835 milljónum árið 2016, 1403 milljónir 2015).  Engu orði var eytt í að lántaka var árið 2017, 360 milljónir en ekki 250 líkt og áætlun sagði til um og þykir nú yfirdrifið.  Nei ekki skrifar bæjarstjórinn um þetta heldur að við séum að tala gegn framkvæmdum og uppbyggingu. Svona útúrsnúningur er ekki boðlegur og bæjarstjóranum ekki til sóma.  Að lokum klingir hann út með því að hvetja okkur til að tala ekki á móti uppbyggingu. Að sjálfsögðu erum við ekki á móti uppbyggingu en það verður að vera einhver vitglóra í framkvæmdunum, hvernig ákvarðanir eru teknar og hvaða áhrif þær hafa á bæjarsjóð. Veikur bæjarsjóður veikir möguleikana á að veita góða og ódýra þjónustu fyrir bæjarbúa, það segir sig sjálft. Við værum ekki starfi okkar vaxin ef við hefðum ekki áhyggjur af þeirri þróun sem verið hefur bæði hvað varðar t.d.  vinnubrögð og skuldsetningu.  Það er sagt að fátt segi betur til um gæði reksturs en hversu vel áætlanir standast. Ekki ætlum við að fara að rökræða þær tölur sem bæjarstjórinn nefnir heldur benda á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga en þar er hægt að skoða allar tölur sveitarfélaganna, bera saman sveitarfélög, skoða þróun á nokkurra ára tímabili og skoða málaflokka. Gott er að sjá slóðina á netútgáfu Stykkishólmspóstsins. Það er óþarfi að vera að karpa um tölur þegar þetta liggur allt upp sett hjá sambandinu fyrir okkur til að skoða.

http://www.samband.is/verkefnin/rekstur-sveitarfelaga/talnaefni/myndraen-framsetning-talnaefnis/

Lárus Ástmar Hannesson

Ragnar Már Ragnarsson

Helga Guðmundsdóttir

Dagbjört Höskuldsdóttir

Bjarki Hjörleifsson