Miðvikudagur , 19. desember 2018

Vendipunktar og tilfinningalegar forsendur safns!

Norska húsið september Það gengur mikið á í safnamálum þessa dagana og þung undiralda rótar upp vottun á öllu mögulegu og ómögulegu í faglegu starfi safna. Ástæðan er sú að nú eru íslensk söfn farin að finna fyrir breyttum safnalögum sem tóku gildi í byrjun þessa árs. Það þýðir að nýjar úthlutunarreglur safnaráðs – sem veitir styrki – hafa breyst. Til þess að geta sótt um rekstrarstyrk úr safnasjóði þurfa söfn að öðlast viðurkenningu og vinna eftir siðareglum ICOM (alþjóðaráð safna). Þessi stefna ætti að leiða af sér öflugri, betri og faglegri söfn sem taka hlutverk sitt alvarlega og eru í takt við það samfélag og umhverfi sem þau þjóna. Þetta er því vendipunktur í íslensku safnastarfi.
Kröfur safnaráðs eru skiljanlegar þar sem þetta eru allt þættir sem ættu að vera í lagi í starfsemi safna eins og ársreikningur; eldvarnir; neyðaráætlun; starfsleyfi; stefnumörkun; stofnskrá; söfnunarstefna og öryggiskerfi. Raunin er hinsvegar sú að söfn eru oftar en ekki mjög fámennar stofnanir jafnvel með eina manneskju til að stýra herlegheitunum á þann hátt að eigendum safnanna líki og helst þannig að þau séu ekki baggi á sveitafélögum né því samfélagi sem þau tilheyra. Í Farskóla FÍSOS (félag íslenskra safna og safnmanna) sem haldinn var í lok sept. voru þessi mál kynnt og stuttur frestur gefinn til að ljúka verkefninu. Líflegar umræður spunnust á samskiptavef safnmanna um þetta stóra verkefni sem flestir safnmenn standa nú frammi fyrir og þurfa mikla aðstoð við. Aðstæðum var líkt við þörf á yfirnáttúrulegum kröftum sem orðaðir eru við hindúa gyðjurnar Durga (gyðja styrks og hugrekkis með átta handleggi) og Kali (gyðja tíma, dauða og umbreytinga með fjóra handleggi). Tilfinningin er ekki fjarri lagi. Starfsmenn safna standa sífellt frammi fyrir í því að finna fé og styrki til að halda starfseminni gangandi. Umræddar siðareglur gera hins vegar ráð fyrir því að yfirstjórn safns tryggji að nægir fjármunir séu fyrir hendi til að standa undir starfsemi og framþróun safns þannig að starfsfólk geti einbeitt sér að faglegu starfi. Því miður er raunin önnur. Vandamálið er að eigendur safna hafa komist upp með að halda í horfinu án verulegra skuldbindinga eða áhuga á að efla starfsemina. Henni er haldið í lágmarki með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er án þess að slegið sé af kröfum um umfang hennar, gæði eða hugmyndaauðgi við að útfæra opnunartíma og dagskrá þannig að allt virðist vera í lagi út á við á meðan innviðirnir molna.
Viðurkenningarferli safnaráðs varpar ljósi á marga veika bletti í faglegu starfi safna. Þegar á reynir við úrlausnarefni sem kalla á afstöðu, samstöðu og samvinnu eigenda þeirra, standa starfsmenn safna oft einir með fangið fullt af verkefnum og hafa lítið sem ekkert bakland. Þannig á það ekki að vera því safn er ekki einkamál þeirra sem þar vinna heldur þarf að vera samráð á milli eigenda og starfsmanna sem spyrja: fyrir hvað viljum við standa sem safn og hvert viljum við stefna?
Norska húsi𠬬– Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla er engin undantekning. Safnið er rekið af fimm sveitafélögum sem eiga safnið. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Sigurjón Baldur Hafsteinsson dósent í safnafræði við Háskóla Íslands mættu á fund framkvæmdaráðs og stjórnar safnsins 28. október s.l. til skrafs og ráðagerða um safnamál á svæðinu. Margrét ræddi um sérstöðu svæðisins sem náttúruperlu og möguleikana á því að að nýta fyrirhugaða tilnefningu Íslands á Breiðafirði á heimsminjaskrá UNESCO. Sigurjón Baldur gerði grein fyrir „svartri skýrslu“ um starfsemi Pakkhússins í Ólafsvík sem margt má læra af. Sigurjón benti á að rangt sé að tala um að söfn séu einungis menningarstofnanir því þau ganga út á að bæta lífsgæði fólks og eru því eins konar heilbrigðisstofnanir! Margrét tók undir og benti á að menning er andlega heilbrigðiskerfið okkar svo okkur langi til eiga gott og kröftugt líf á meðan við erum heilbrigð.
Mörg dæmi eru um að söfn séu notuð sem virkur samstarfsvettvangur ólíkra hópa. Lykilatriði eru áhugi, samstarf og samvinna. Nú fer að líða að aðventuopnun Norska hússins. Raunin er sú að allar faglegar forsendur mæla með því að safnið verði ekki opnað í ár en tilfinningalegar forsendur eru allt aðrar. Því er kallað eftir samstarfi við íbúa svæðisins. Hvernig vilt þú sjá aðventuna í Norska húsinu og hvað getur þú eða þinn hópur lagt af mörkum? Sendið safninu línu á info@norskahusid.is eða á www.facebook.com/NORSKAhusid.BSH
AlmaDís Kristinsdóttir, safnstjóri Norska hússins – BSH