Verk að vinna

Nú hafa reikningar Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2017 verið teknir til umfjöllunar og vísað til annarrar umræðu. Þegar við metum niðurstöðurnar er mikið um samanburð. Samanburð milli ára og samanburð milli sveitarfélaga.  Reiknistímabil bæjarstjórna eru í raun fjögur árin eftir kosningar þar sem lítið svigrúm er til að hafa mikil áhrif á reksturinn árið sem kosningarnar eru enda búið að gera allar áætlanir og leggja línurnar fyrir það árið.  Það er því rétt að segja að við í L-listanum mótuðum þróunina  árin 2011-2014 og H-listinn 2015-2018.  Reikningana er hægt að nálgast á heimasíðu bæjarins. Einnig er þessi samantekt með nánari útskýringum á vef Stykkishólms-Póstsins.  Niðurstaðan er í samræmi við það sem við höfum varað við.  Eytt hefur verið verulega um efni fram og er skuldaaukningin 302 milljónir á milli ára. Skuldaaukningin hefur þá verið 494 milljónir á undanförnum þrem árum að frádregnum skuldum Dvalarheimilisins og Þjónustuíbúðanna en fjárhagur þessara eininga var tekinn inní bókhald bæjarins árið 2016. Skammtímaskuldir í samstæðunni fara úr 363 milljónum í 516 milljónir ef teknar eru með næsta árs afborganir langtímaskulda en án þeirra hækka skammtímaskuldirnar úr 182 milljónum í 319 milljónir. Þessa þróun verður að stöðva enda skuldahlutfallið farið að nálgast aftur leyfilegt hámark. Hafa verður í huga þegar metið er hvort ásættanlegt er að handbært fé um áramót sé 39 milljónir að rétt fyrir áramótin var tekið skammtímalán sem nam 50 milljónir auk þess sem laun (37 milljónir) voru ekki greidd fyrr en 2. janúar. Þess má einnig geta að handbært fé um áramótin 2015 og 2016 var 72 milljónir.  Þetta er að sjálfsögðu óásættanleg staða sem gerir það að verkum að ítrekað verðu að notast við yfirdrátt þegar kemur að launagreiðslum eða öðrum stórum útgjöldum með tilheyrandi kostnaði.

Við bæjarfulltrúar L-listans erum að sjálfsögðu mjög ósátt við þá þróun sem hefur verið undanfarin ár.  Við vorum á réttri leið árin 2010 – 2014 þegar þáverandi bæjarstjórn undir forystu L-listans náði að bæta verulega stöðu bæjarsjóðs. Það sem gerir stöðuna neikvæðari í okkar huga er að  ekkert hefur verið hlustað á okkar málflutning hvort sem er varðandi áherslur eða ábendingar sem snéru að áætlanagerð, rekstri eða fjárfestingum.

Í umræðu um reikningana höfum við óskað eftir að gerður verði viðauki við áætlun 2018 enda ljóst að hún mun ekki standast.  Áætlanir áranna 2018-2021 byggja á áætlun 2017 og því nauðsynlegt að leiðrétta áætlanir þegar rauntölur 2017 liggja fyrir og eru ekki í takt við áætlanir. Lántökur 2017 urðu hærri og handbært fé varð lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Vitað er að tekjuaukning sem gerð var  ráð fyrir 2018 mun ekki verða eða um 150 milljónir á milli ára og fyrir liggur að mun meiri lántökur verða nauðsynlegar árið 2018 en gert er ráð fyrir í áætlunum.

Að sjálfsögðu eru framkvæmdir að hluta til ástæða þessarar miklu skuldaaukningar og bæjarstjórnin hefur verið sammála um sumar þeirra t.d. lagfæringar á gatnakerfi bæjarins og stækkun leikskólans.

Já það er verk að vinna og mjög mikilvægt að strax á nýju kjörtímabili verði rýnt í stöðuna og gerðar áætlanir sem snúa munu þessari stöðu við.  Til að svo geti orðið verða bæjarfulltrúar að meta fjárhaginn, gera áætlanir og taka ákvarðanir sem sumar hverjar geta reynst erfiðar.  Vonandi ber bæjarfulltrúum gæfa til að standa saman og finna leiðir til að lækka rekstrarkostnað.

Það eru mjög stór og kostnaðarsöm verkefni framundan og viljum við þar nefna færslu öldrunarþjónustunnar, skólalóðina, viðhald sundlaugar og íþróttahúss og uppgerð á Bíóhúsinu svo eitthvað sé nefnt. 

Spurningarnar sem við verðum að spyrja okkur eru t.d. hvert viljum við stefna í rekstri bæjarfélagsins? Viljum við vera skuldsett sveitarfélaga með háum  vaxtagreiðslum og eiga erfitt með að sinna nauðsynlegu viðhaldi?

Bæjarfulltrúar L-listans
Lárus Ástmar Hannesson,
Ragnar Már Ragnarsson og
Helga Guðmundsdóttir.