Vestmanneyingurinn

UntitledÉg þakka systur minni frá annarri móður kærlega fyrir pennann. Þar sem ég er í fæðingarorlofi þá geri ég lítið annað en að baka og éta, það er sko lífið. Ég ætla hér að færa ykkur uppskrift að syndsamlegri skyrköku, hentar einstaklega vel sem eftirréttur svona til að loka maganum (lærði það ekki í íþróttafræðinni). Hana er best að undirbúa daginn áður en hún er borin fram, slurk og slef og verði ykkur að góðu. Það sem hafa þarf við höndina:

80g smjör
1 pakki af Lu Bastogne (þetta með kanilbragðinu)
1 peli rjómi
1 stór dolla af vanilluskyri
1 plata af Nóa rjómasúkkulaði
1-2 stykki Mars súkkulaði
Fersk ber að eigin vali

Byrjað á því að bræða smjörið í potti og mylja niður kexið. Þessu er svo blandað saman og sett í botninn á formi að eigin vali, t.d. eldföstu móti eða hringlaga smelluformi. Næst er rjóminn þeyttur og skyrinu skellt í skál, rjómanum er svo blandað varlega við skyrið svo blandan verði ,,flöffí”. Súkkulaðið er skorið í bita og sett saman við skyrið og rjómann. Þessu er smurt yfir kexmulninginn. Að lokum er gott að setja fersk ber yfir herlegheitin eða sultu. Geymist í kæli (ekki frysti!) þar til borið fram. Þið bara þakkið mér úti á götu!

Annars skora ég á mína elskulegu tengdamóður, Stínu, að koma með uppskrift í næsta blaði. Takk fyrir mig.

 

María Kúld Heimisdóttir