Laugardagur , 23. september 2017

Við áramót

Sturla BöðvarssonÉg nefndi það í pistli mínum á síðasta ári að við Íslendingar erum vel settir að búa við rótgróið lýðræðisskipulag og eiga þess kost að hafa áhrif á stjórnarfar okkar í kosningum. Óstjórn, ofbeldi, hryðjuverk og mikill straumur flóttamanna til Evrópu setti mark sitt á veröldina á síðasta ári með þeim hætti að í minnum verður haft. Sú þróun vekur ugg meðal friðelskandi þjóða. Það ástand minnir okkur á hversu gott samfélag við höfum byggt upp hér á Íslandi. Árið 2015 var fyrsta heila árið eftir sveitarstjórnakosningar. Í kjölfar þeirra tók nýr meirihluti við í bæjarstjórn og undirritaður tók við sem bæjarstjóri og hefur það verkefni tekið hug minn allan. Það fellur því í minn hlut að skrifa þessar línur í upphafi ársins. Mun ég í þessum pistli gera grein fyrir helstu málum sem er á dagskrá okkar bæjarfulltrúa og starfsmanna bæjarins við upphaf ársins 2016.

Breyttar áherslur í bæjarstjórn.
Í aðdraganda kosninganna setti H-listinn fram skýra stefnu sem er ætlað styrkja stöðu samfélagsins okkar hér í Hólminum og stuðla að því að atvinnulífið eflist svo standa megi undir þeim margháttuðu verkefnum sem sveitarfélögum er ætlað að sinna. Til þess að takast á við það verkefni þurfti bæjarstjórn að efna til uppstokkunar við rekstur bæjarins. Þær aðgerðir munu taka tíma, en eru nauðsynlegar því tekjur hafa vart dugað fyrir útgjöldum mörg undanfarin ár og það hefur ógnað starfsemi bæjarfélagsins. Óvissa í fjármálum kann ekki góðri lukku að stýra til langframa og því eru breyttar áherslur í rekstri og við fjármálastjórn nauðsynlegar svo styrkja megi og efla efnahag bæjarins. Um það er full sátt í bæjarstjórn. Jafnframt er mikilvægt að hvetja til framtaks og framfara á sviði atvinnulífsins um leið og allt er gert til þess að byggja upp innviði bæjarins og sinna viðhaldi og leggja á ráðin um framtíðaruppbyggingu sem mótuð verði af stórhug og áræðni.

Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2016 afgreidd í bæjarstjórn.
Fjárhagsáætlun Stykkishólms-bæjar fyrir árið 2016 var samþykkt á síðasta bæjarstjórnarfundi fyrir jól og er nú unnið samkvæmt henni. Líkt og gert var haustið 2014 var mikil vinna lögð í gerð fjárhagsáætlunar og náið samráð haft við forstöðumenn stofnana bæjarins. Áfram var unnið að breytingum í rekstri samkvæmt úttekt Atvinnuráðgjafar SSV og ráðgjafastofunnar R3-ráðgjöf. Það voru reyndir rekstrarráðgjafar sem voru fengnir til þess að gera úttekt á rekstri bæjarins og leggja upp tillögur um fjárhagslega og rekstrarlega endurskipulagningu til samræmis við þær athuga-semdir sem Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hafði gert vegna síðasta kjörtímabils. Eftirlitsnefndin staðfesti vinnu-brögð og aðgerðir bæjarstjórnar og gerði ekki frekari athugasemdir og er því unnið fullum fetum í samræmi við þær samþykktir. Allar aðgerðir stefna að því marki að koma böndum á vöxt útgjalda og nýta sem best þær takmörkuðu tekjur sem bæjarsjóður hefur. Útgjöld á hvern íbúa í Stykkishólmi hafa verið há miðað við sambærileg sveitarfélög og starfsmenn fleiri en eru hjá sveitarfélögum af svipaðri stærð. Stöðugildum þarf að fækka enda nauðsynlegt bæði vegna þess að útgjöld hafa verið há og einnig vegna þess að kjarasamningar og starfsmat vegna þeirra hefur leitt til verulega aukinna útgjalda launaliðar sem raska fjárhagsáætlun árið 2015 þar sem launaleiðréttingar samninga náðu allt aftur til miðs ársins 2014 með tilheyrandi útgjaldaauka og skapar þrengri stöðu árið 2016. Það verður því nauðsynlegt að halda áfram við skipulagsbreytingar sem geti leitt til lækkunar útgjalda sem er hvorki auðvelt verkefni né fallið til vinsælda. Það er samt óhjákvæmilegt. Það verður því unnið áfram í samræmi við tillögur sérfræðinga í rekstri sveitarfélaga. Útgjöld hafa t.d. ekki lækkað eins og gert var ráð fyrir á sviði safnamála og verður unnið að því að ná þeim markmiðum með samruna og samstarfi safnanna. Því miður náðist ekki samstaða innan bæjarstjórnar um helstu verkefni, en engu að síður var fjárhagsáætlunin samþykkt með öllum greiddum atkvæðum .

Auknar kröfur til fjármálastjórnar sveitarfélaga.
Eins og fjallað var um í pistli mínum á síðasta ári var sveitarfélögum sett ströng viðmið um afkomu og fjárhagsstöðu með sérstakri löggjöf sem tók gildi 1. janúar 2012 og er því ekki ný til komið. Má þar helst nefna kröfu um jákvæða samanlagða rekstrarniðurstöðu á þriggja ára tímabili og að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta sveitarsjóðs verði ekki hærri en 150% af reglulegum tekjum. Stykkishólmsbær þarf eins og önnur sveitarfélög að taka tillit til þessa í áætlunum sínum fyrir árið 2016.
Gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun að skuldaprósenta sveitarfélagsins verði um 119.9% í árslok 2016. Hún var 131.4% í árslok 2014 eftir endurskipulagningu sam-kvæmt ákvörðun núverandi bæjarstjórnar en var 147.2% í árslok 2013. Þetta er jákvæð þróun og því er allnokkurt svigrúm til lántöku til framkvæmda sem verið er að undirbúa. Samkvæmt áætlun mun Stykkishólmsbær halda jákvæðri rekstrar-niðurstöðu á þriggja ára tímabili og því uppfylla þær lagareglur sem gilda.

Erum á réttri leið en stóraukin útgjöld vegna kjarasamninga valda vanda.
Bæjarstjórn hefur með afgreiðslu viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2014 og með fyrstu fjárhagaáætlunar þessa kjör-tímabils markað skýra stefnu, stefnu aðhalds og varfærni í útgjöldum með langtíma markmið í fjárfestingum að leiðarljósi. Engu að síður hafa kjarasamningar sett stórt strik í reikninginn á síðasta ári og stóraukið útgjöld m.a. vegna þess að launabreytingar og breytingar vegna starfsmats ná allt aftur til miðs ársins 2014 en eru greidd út og gjaldfærð 2015. Þá er hallarekstur dvalarheimila alvarlegt vandamál sem sveitarfélögin standa öll frami fyrir og verður ekki þolað lengur. Er óhjákvæmilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga taki það mál föstum tökum gagnvart ríkisstjórn og Alþingi.

Þegar Eftirlitsnefndinni um fjármál sveitarfélaga hafði verið kynntar ákvarðanir bæjarstjórnar um fjárhaglega og rekstrarlega endurskipulagningu barst bréf frá nefndinni þar sem segir m.a.:
„EFS hefur yfirfarið upplýsingar sveitarfélagsins og er það niðurstaða nefndarinnar að óska ekki eftir frekari upplýsingum vegna fyrirspurnar þessarar. Jafnframt telur nefndin það góða og ábyrga afstöðu bæjarstjórnar að leita eftir óháðri ráðgjöf vegna mögulegrar hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.“ Það má því segja að bæjarstjórn sé ótvírætt á réttri leið með þeim ákvörðunum sem teknar voru við undirbúning og afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árin 2015 og 2016. Ástæða er til þess að þakka forstöðumönnum stofnana bæjarins þeirra hlutdeild og frumkvæði við að gæta aðhalds í rekstri, en verkefninu er ekki lokið svo sem fyrr er getið og þá sérstaklega vegna þess hversu launahækkanir eru miklar. Næsta skrefið er enn frekari endurskipulagning sem tryggir nauðsynlega hagkvæmni í rekstri og það gæti leitt til fækkunar starfsmanna. Vert er að geta þess að á árinu 2015 var tekið upp nýtt bókhaldskerfi hjá bænum og var það nokkur fjárfesting bæði í tölvuhugbúnaði og þjálfun starfsmanna sem mun nýtast á komandi árum. Vinnsla er hraðari og ætti að auðvelda aðhald og eftirfylgni með rekstrinum og auðvelda fjármálastjórnina. Þá er vert að geta þess að kjörin hefur verið endurskoðunarnefnd Stykkishólmsbæjar og henni sett erindisbréf með sérstakri samþykkt bæjarstjórnar sem er nýmæli og hefur ekki verið gert fyrr.

Útsvar verður áfram 14.37%.
Til þess að tryggja rekstur sveitarfélagsins var óhjákvæmi-legt að styrkja tekjustofna þess strax árið 2015 og aftur 2016 með hóflegri hækkun á gjaldskrám sem ekki höfðu fylgt verðlagsþróun og í sumum tilvikum verið óbreyttar árum saman sem var óeðlilegt. Gjaldskrár hækka að jafnaði árið 2016 um 3,0% sem er minni hækkun en var á síðasta ári. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkar að meðaltali um 1.8% og mat lóða hækkar um 3.1%. Álagningarstuðlar fasteignagjalda breytast ekki á árinu 2016. Álagningarstuðull fasteignagjalda A-íbúðahúsnæðis verður 0,50%, Fasteignaskattur B-flokkur 1,32%, Fasteignaskattur C-flokkur 1,65%. Álagningar-stuðull lóðaleigu íbúðarhúsnæðis 1,40% og álagningarstuðull holræsagjalds íbúðahúsnæðis verður 0,20%.
Viðkomandi álagningarstuðlar atvinnuhúsnæðis verða óbreyttir.
Álagningarheimild útsvars verður ekki full nýtt árið 2016 og verður hið sama og var árið 2015 þegar útsvarið var lækkað úr 14,52% í 14,37%. Ætti það að geta verið hvatning fyrir þá sem eiga fasteignir hér og gætu einnig átt lögheimili og greitt útsvar til Stykkishólmsbæjar.
Helstu niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar Stykkishólmsbæjar fyrir árið 2016 eru þessar:
Tekjur A og B hluti eru áætlaðar 1.144,45 m.kr. en rekstrargjöld 1,033,05 m.kr. Fjármagnsliðir eru 70,4 m.kr. Tekjur umfram gjöld verða því um 41,0 m.kr. Handbært fé frá rekstri eru 147,9 m.kr., fjárfestingar 128,0 m.kr., afborganir langtímalána 144,2 m.kr., lántaka verður 170,0 m.kr. og handbært fé í árslok 136 milljónir. Lántaka er aukin til þess að auðvelda fjármálastjórn en afborganir lána dreifast ójafnt yfir árið og ekki hefur tekist að skuldbreyta óhagstæðum lánum svo sem vænst var .

Framkvæmdir og fjárfestingar
Helstu framkvæmdir og fjárfestingar eru svo sem hér er tilgreint: Fyrsti áfangi viðbyggingar við Grunnskólann að Borgarbraut 6 sem hýsi Amtsbókasafnið, skólabókasafn og ljósmyndasafnið, viðgerð húsnæðis Eldfjallasafnsins með styrk frá Húsafriðunarsjóði, hönnun og framkvæmdir við Maðkavík vegna fráveitu, gatnagerð við Hjallatanga og Víkurgötu, lagfæring gangstétta, stígagerð meðfram þjóðvegi að Hamraendum og stígagerð í Súgandisey haldið áfram, bætt aðgengi og endurbætur á bíla-stæði við Dvalarheimili, framlög vegna húsnæðis fyrir fatlað fólk, framlög vegna hjúkrunardeildar á sjúkrahúsi, endurbætur leikvalla, deiliskipulag hafnarsvæðis í Skipavík, viðhald og endurbætur hafnarmannvirkja, endurskipu-lagning bílastæða á hafnar-svæði og bætt aðstaða vegna móttöku ferðamana við höfnina, endurnýjun tækja og búnaðar Áhaldahúss og Slökkvistöðvar, deiliskipulag íbúðarsvæða við Vatnsás, deiliskipulagning við Frúarstíg vegna breytinga á byggingarreit núverandi Amtsbókasafns og áforma um nýjar byggingar þar og deili-skipulag blandaðrar byggðar við Reitaveg.
Samið var um greiðslur til Stykkishólmssafnaðar fyrir afnot af kirkjunni í þágu stofnana bæjarins sem var nýtt til viðgerða á kirkjunni. Þá verður veittur styrkur til Hestaeigendafélagsins vegna reiðskemmu og styrkur til starfsemi UMF Snæfells hækkaður.

Til þess að fjármagna framkvæmdir næstu ára er áfram gert ráð fyrir eignasölu og er unnið að því að selja Hljómskálann við Silfurgötu, lóð og hús Tónlistarskólans við Skólastíg og aðrar eignir sem bæjarstjórn ákveður að selja enda fáist viðunandi verð og samningar um afhendingu í samræmi við framvindu bygginga við skólann sem hýsi Tónlistarskólann. Sala eigna við Skólastíg er háð því að áform um nýtingu þeirra fasteigna verði til atvinnuuppbyggingar og fjölgi atvinnutækifærum. Nýting þessara húseigna og breytingar á þeim falli að deiliskipulagi bæjarins sem gerir strangar kröfur um húsafriðun og umhverfismál. Það er mat pistilritara að gamli skólinn og lóðin sé einstakur staður til uppbyggingar hótels með einstaka fjallasýn, útsýni yfir byggðina og Breiðafjörðinn. Slíkar aðstæður eru verðmætar fyrir þá sem vilja fjárfesta í fegurðinni á einstökum útsýnisstað í hjarta eins fallegasta bæ landsins.

Önnur mikilvæg verkefni sem unnið er að.
Það sem af er kjörtímabilinu hefur verið unnið fullum fetum að ýmsum málum sem taka mikinn tíma og flokkast undir að vera meðal mikilvægustu verkefna sem á borði bæjarstjórnar eru og varða miklu um framtíðar þróun bæjarins. Þar má nefna að tryggja uppbyggingu öldrunarþjónustu með sameiningu Dvalarheimilis og hjúkrunardeildar Sjúkrahúss HVE og efla um leið starfsemi sjúkrahússins og þar með háls og bakdeildar. Þau áform eru í samræmi við það samkomulag sem unnið var að beiðni ráðherra árið 2014. Full sátt ríkir um þetta verkefni innan bæjarstjórnar og við ráðuneyti og stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Þá má nefna vinnu við að skipuleggja iðnaðarsvæði á hafnarsvæðinu í Skipavík í þágu þörungavinnslu sem unnið er að og annars þess iðnaðar sem hentar að byggja upp í nágrenni við skipasmíðastöðina. Í tengslum við skipulag hafnarsvæðis í Skipavík verður unnið að því að ná samkomulagi um að viðgerð og lengingu stálþilsins í Skipavík komist í samgönguáætlun svo tryggja megi enn betur þjónustu hafnarinnar vð atvinnulífið. Sú uppbygging verður að vera í þágu þeirrar atvinnustarfsemi sem þar er fyrirhuguð og skapar Skipavík aukið athafnarými til nýsköpunar sem gæti fjölgað atvinnutækifærum.

Leikskólinn
Það er vissulega fagnaðarefni að börnum á leikskólaaldri hefur fjölgað í bænum okkar. Það eru augljós merki þess að unga fólkið sækist eftir búsetu í Stykkishólmi. Nú er svo komið að ekki eru nægjanlega mörg pláss á leikskólanum. Það er nú til skoðunar hvernig komi til greina að stækka leikskólann.
Það er þekkt að þjónusta leikskóla er veitt af öðrum en sveitarfélögum. Það er vilji bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar að standa þannig að málum að allir foreldrar eigi þess kost að fá vist fyrir börnin í leikskóla eða hjá dagforeldri. Í dag er engin þjónusta dagforeldra í bænum og ekki er hægt að fjölga á leikskólanum nema byggja við hann sem hefur ekki verið á áætlun og mun taka tíma og er því ekki raunhæfur kostur gagnvart þeim fáu sem eru á biðlista í dag.
Því þarf leita annarra leiða og meta stöðuna. Þess má geta að dæmi eru til þess að sveitarfélög hafi tekið upp „foreldragreiðslur“ þannig að foreldrar geti kallað þá til sem þau velja og eru tilbúnir að sinna barnagæslu hluta úr degi á heimili viðkomandi. Það er eðlilegt að allir þessir kostir verði skoðaðir í þeim tilgangi að tryggja sem besta þjónustu og valkosti fyrir þá foreldra sem þurfa gæslu fyrir börnin þann tíma dagsins sem foreldrar sinna vinnu sinni fjarri heimili og börnum.

Framtíð Dvalarheimilis aldraðra
Dvalarheimili aldraðra gegnir mikilvægu hlutverki í þágu bæjarins. Eins og þekkt er þá er dvalarheimilis- og hjúkrunar-aðstaðan þar ekki byggð upp í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í dag til slíks húsnæðis. Engu að síður hefur tekist í gegnum tíðina að skapa þar einstaklega heimilislegar aðstæður sem auðvitað helgast af frábæru starfsfólki sem sinnir störfum sínum af kostgæfni. Við þessar aðstæður hefur heimilið hinsvegar verið rekið með verulegum halla undanfarin ár og safnast upp mikil skuld við bæjarsjóð vegna þess að þau daggjöld sem tryggingarnar greiða standa ekki undir kostnaði. Vegna þessa viðvarandi halla-reksturs og vegna þess að bæta verður aðstöðuna er gert ráð fyrir að samþætta starfsemi Dvalarheimilis aldraðra og Sjúkrahúss HVE undir einu þaki með því að breyta sjúkrahúsinu í þágu nýrrar 18 rúma hjúkrunar-deildar sem taki við af hjúkrunar-deild Dvalarheimilisins. Í hús-næði Dvalarheimilisins mætti þá koma fyrir íbúðum og nýta aðra aðstöðu til félagsþjónustu aldraðra og þjónustu við þá sem búa í íbúðum aldraðra við Skólastíg. Að þessum breyt-ingum er unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti og stjórnendur Sjúkrahúss HVE.
Þá er gert ráð fyrir því að sjálfs-eignarstofnun verði til um rekstur og eignir Dvalar-heimilisins í upphafi þessa árs í þeim tilgangi að auðvelda breytingar og skapa skýrari mynd af rekstri og eignum þegar kemur að samruna við sjúkrahúsið.

Ný atvinnutækifæri, húsnæðismál og íbúaþróun
Við áramót eru íbúar Stykkishólms 1118. Er því fjölgun á milli ára, en mikil hreyfing hefur verið á íbúum mörg undanfarin ár. Það er mikilvægt að íbúum fjölgi en Það gerist ekki nema með því að tryggja ný atvinnutækifæri. Sú þjónusta sem byggð hefur verið upp á vegum bæjarins í þágu íbúa og atvinnulífsins verður ekki rekin og jafnframt gerðar kröfur um framþróun nema tekjur aukist og tekjur bæjarsjóðs munu ekki aukast nema atvinnu-tækifærum fjölgi. Til þess að manna megi nýjar stöður þarf íbúðarhúsnæði. Það er því eitt af mikilvægustu viðfangsefnum að tryggja framboð íbúða með því að byggðar verði leigu og söluíbúðir. Að því verki verða að koma einstaklingar og fyrirtæki í samstarfi við bæinn sem gerir ráð fyrir þeim möguleika að veita lán vegna gatnagerðargjalda til félaga sem hefðu það hlutverk að byggja, selja og leigja íbúðarhúsnæði.
Talið er að ferðaþjónusta í sinni fjölbreytilegu mynd sé stærsti atvinnuvegur í heiminum. Því er spáð að ferðaþjónustan á Vesturlandi muni vaxa mikið á næstu árum. Stykkishólmur hefur mikla möguleika til þess að vaxa sem ferðamannastaður og miðstöð samgangna við Breiðafjörð og skapa þannig fjölmörg atvinnutækifæri við ferðaþjónustu og flutninga. Til þess þarf mikla fjárfestingu í bættu umhverfi og innviðum og afþreyingu til við bótar við það sem er í dag. Þau tækifæri verða ekki nýtt nema öflugir fjárfestar komi þar að og nýti möguleikana í samstarfi við bæjaryfirvöld sem auðvitað verða að tryggja þann hluta uppbyggingar sem snýr að bæjarfélaginu. Ástæða er til þess að minna á þá miklu vinnu sem lagt var í á sínum tíma við að vekja athygli á heitavatninu okkar og lækningamætti þess. Heitavatnið í Stykkishólmi ætti að geta keppt við önnur jarðböð sem draga til sín þúsundir ferðamanna á hverju ári. Það er ástæða til þess að hvetja fjárfesta til þess að skoða uppbyggingu sem nýti aðgang að þessari heilsulind sem vatnið okkar vissulega er. Við verðum að gera kröfu til þess að Orkuveitan sem á og rekur hitaveituna stuðli að nægu framboði á vatni með þeim aðgerðum sem þarf að standa fyrir svo auka megi framboð af þessu einstaka vatni sem hefur verið metið og viðurkennt af þar til bærum aðilum.

Það er von mín að okkur takist að snúa áralangri vörn til sóknar með nýjum atvinnutækifærum og að skelveiðar geti hafist sem fyrst. Samfélagið þarf mjög á því að halda að vel launuð störf verði til svo sem var þegar skelveiðarnar voru og hétu í atvinnumálum Stykkishólms. Þess er að vænta að sem flestum atvinnugreinum takist að skapa þau skilyrði að launakjör verði eftirsóknarverð hjá fyrirtækjum í Stykkishólmi. Það tryggir best framtíð staðarins og afkomu heimila og fyrirtækja.