Víkingasveit tónlistarskólans

Fyrir nokkrum árum vantaði okkur verkefni fyrir lengra komna nemendur skólans. Varð þá úr að stofna samspilshóp og fékk hann nafnið „Víkingasveit“ til heiðurs fyrsta stjórnanda lúðrasveitarinnar og skólastjóra tónlistarskólans. Á myndinni má sjá Víking Jóhannsson stjórna drengjasveit Lúðrasveitar Stykkishólms á Hellissandi árið 1965.

Víkingasveitin okkar hefur starfað í ýmsum myndum og verið misstór síðustu ár. Í vetur ætlum við að bjóða hljóðfæraleikurum í 10. bekk og eldri að taka þátt í starfi sveitarinnar, hvort sem þeir eru ennþá nemendur skólans eða ekki. Fyrrverandi félagar og aðrir fullorðnir hljóðfæraleikarar eru því velkomnir að vera með.

Æft verður 1 sinni í viku, klukkutíma í senn, en enn eigum við eftir að ákveða hvaða dag. Efnisskráin verður fjölbreytt, vonandi fáum við að rifja upp gamla lúðrasveitarsmelli í bland við nýrra efni.

Nemendur skólans þurfa ekki að borga fyrir þátttökuna en aðrir greiða sanngjarnt þátttökugjald.

Til að af þessu spennandi verkefni geti orðið verðum við að fá næga þátttöku til að sveitin nái að hljóma vel. Við hvetjum alla sem kunna á hljóðfæri og hafa gaman af að spila saman að hrista rykið af hljóðfærunum og draga gamla lúðrasveitarvini með sér. Rétt er að geta þess að hægt er að leigja hljóðfæri í skólanum.

Stjórnandi Víkingasveitarinnar í vetur verður Martin Markvoll og þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að hafa samband við hann í síma 863 2019 eða tölvupóst: martin@stykk.is.

Fh. Tónlistarskóla Stykkishólms Martin og Jóhanna