Vilji og veruleiki

Það er orðið ljóst að draumsýn mín um flokkalausar kosningar verða ekki að veruleika að þessu sinni þar sem framboðslisti hefur verið lagður fram.

Það er orðið ljóst að draumsýn mín um flokkalausar kosningar verða ekki að veruleika að þessu sinni þar sem framboðslisti hefur verið lagður fram. Ég fékk ótrúlega mikil viðbrögð eftir greinina sem ég skrifaði í þar síðasta Stykkishólms-Póst og dreg af því þá óábyrgu ályktun að meirihluti bæjarbúa myndi gjarnan vilja fá tækifæri til að kjósa um einstaklinga í stað flokka. Forsendur þess að það sé hægt er að enginn framboðslisti hafi verið lagður fram fyrir tilskilinn tíma (6. maí 2006). Þá eru allir kjósendur í kjöri, nema þeir sem formlega skorast undan því. Sveitarstjórnarmönnum er heimilt skorast undan endurkjöri og eins þeir sem eru eldri en 65 ára eða heilsuveilir. Þeir sem væru tilbúnir til að starfa að þessum málum gætu auðveldlega látið vita af því í bæjarblaðinu og jafnvel gefið sig sérstaklega að ákveðnum málaflokkum. Málefnavinna og stefnumótun tæki þá við strax að kosningum loknum, í stað þess að vera í aðdraganda kosninga, og myndi sá hálfi mánuður sem gæfist fram að stjórnarskiptum nýtast vel. En hvað um það, vilji og veruleiki fara ekki endilega saman, en það er samt alveg óhætt að láta sig dreyma áfram um framtíðina.
Ég er enn á þessum báðum áttum, veit hreinlega ekki í hvort fótinn ég á að stíga varðandi hópana tvo sem ganga nú á vit kosningaherferðarinnar, því mér líst bara ágætlega á þá báða. Líklega væri vænlegast að stíga í hvorugan fótinn, en það er bara svolítið snúið. Ég held því að ég standi bara í báða fætur áfram og fylgist með framvindu mála. Mér finnst ég geta stutt alla þá einstaklingum sem hafa áhuga á velferð bæjarins og er á móti hvorugum hópnum. Ég neita að trúa því að flokkapólitík stjórni stefnumörkun í bæjarmálum og ég er enn svo „aðflutt“ að ég sé fólk sem einstaklinga en ekki hluta af fjölskyldusögu.
Ég er fróðleiksfús, langar til að kynna mér hvernig þetta gengur allt saman fyrir sig. Ég er forvitin að vita hvað það sé sem veldur því að fólk vilji starfa á þessum vettvangi. Er það þörfin fyrir völd, tækifærið til að koma sér og sínum á framfæri, er þetta starf þakklátt og gefandi, rekur sjálfseyðingarhvöt fólk áfram (mér er sagt að það sé mannskemmandi að standa í þessu!) eða bara einfaldlega þörfin fyrir að leggja gott af mörkum til samfélagsins? Mér finnst líklegast að það sé það síðastnefnda, og ég vona að svo sé! Kannski kemur í ljós að mér lítist ekkert á þetta þegar ég kynnist því betur, en kannski mun ég finna mig í þessu og langa til að leggja mitt af mörkum síðar þegar ég get gefið mér tíma í það.
Ég geri mér reyndar grein fyrir því að það kemur að því að ég þurfi að velja á milli, en það er svo langt inni í framtíðinni, ekki fyrr en 27. maí, og þá ætti ég að vera komin með skýrari mynd af þessu öllu saman! Það má ekki setja kross við báða hópana, eða hvað??!

                                                                                       Bestu kveðjur
                                                                                       Elín Bergm. Kr.