Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Vinnustaðurinn Ásbyrgi er fluttur í Langa Skúrinn

Eins og glöggir íbúar bæarins hafa séð þá höfum við starfsmenn Ásbyrgis verið að koma okkur fyrir í Langa Skúrnum. Í stuttu máli sagt erum við rífandi kát með Langa Skúrinn.

Þegar við hófum okkar starf í lok ágúst 2012 þá vorum við fjögur og nóg pláss fyrir alla í Ásbyrgi. Ekki var flókið að fynna nafn á starfsemina – húsið átti nafn sem við nýttum okkur. Við höfum ákveðið að halda því nafni og erum áfram vinnustaðurinn Ásbyrgi.
Langi Skúrinn býður upp á gjörbreytt vinnuumhverfi. Nóg pláss fyrir öll okkar verkefni og meira til.
Við sóttum um samfélagsstyrk hjá Landsbankanum í lok árs 2017 og vorum svo heppin að fá 250 þúsund til að vinna að minnkun plasts. Styrkinn nýttum við í að kaupa okkur þetta líka flotta sníðaborð sem hægt er að hækka og lækka allt eftir þörfum.
Það gefur auga leið að vinna þar sem hvert verkefni á sinn stað auðveldar okkur starfið svo um munar.
Áður var sniðið, stimplað, límt, spilað, drukkið og allt annað líka við sama borðið. Ekki voru menn alltaf sammála um hver átti að fá afnot af borðinu þá stundina.

Nú er orðið deildarskipt og allt hefur sitt rými t.d. prjóna, hekl og útsaumsdeild, stimplunardeild, tuskugerð, saumadeild, málingardeild, kertadeild og sér aðstaða í eldhúsi fyrir nesti.
Síðast en ekki síst er þessi líka fína sölubúð þar sem við seljum okkar framleiðslu. Eins höfum við komið upp nytjamarkaði sem fengið hefur nafnið Gullabúðin. Þar kennir ýmisa grasa. Já, sjón er sögu ríkari.
Eins og áður er allt á 200 krónur svo bara verðið eitt gleður.
Áfram höfum við endurnýtingu í hávegum og þiggjum því með þökkum allt mögulegt sem lokið hefur sínu hlutverki hjá ykkur. Ef það nýtist okkur ekki komum við því á góðan stað t.d.: Allt lín, jólaefni er ofarlega á óskalistanum, tré herðatré, gleraugu, umslög með frímerkjum á, jólakort, áldósir, glerkrukkur og svo allt annað líka.

Við erum ótrúlega heppin með það samfélag sem við búum í. Höfum náð að fá vinnusamninga fyrir flesta okkar starfsmenn. Já við eigum víða vini. Höfum fengið vini bæði með blóm og vöflur hingað til okkar.
Narfeyrastofa hefur lagt okkur til það gler sem til fellur af staðnum.
Eins hafa ýmis félög hér í bæ styrkt okkar starf með gjöfum, ráðum og dáð allt frá opnun. Fyrir þetta erum við svo sannalega þakklát án ykkar værum við ekki það sem við erum í dag.

Starfsmenn Ásbyrgis tóku þátt í „Fyrirmyndadeginum“ sem haldinn var af Vinnumálastofnun 24. nóv. síðastliðinn. Þau fyrirtæki sem við leituðum til með þátttöku voru öll jákvæð og gáfu okkur tækifæri. Það er gaman að segja frá því að í framhaldi af fyrirmyndardeginum fékk einn starfsmaður vinnusamning, hjá Íslenska Gámafélaginu. Það er svo sannarlega þannig sem fyrirmyndardagurinn á að virka, það er gefa fötluðum tækifæri til að kynnast nýjum störfum og sanna sig.

Markmiðin með starfseminni í Ásbyrgi eru skýr – þau eru tvíþætt:

Annarsvegar að aðstoða fatlaða einstaklinga við að fá og halda vinnu á almennum vinnumarkaði.
Hinsvegar að skapa okkur vinnu á staðnum og búa þannig til peninga sem við notum til að auka lífsgæði þeirra sem hér starfa, t.d. höfum við farið á mörg námskeið, út að borða eða annað sem heillar.

Starfsmenn í Ásbyrgi ætla að hafa opið hús í Langa Skúrnum og kynna starfsemina mánudaginn 12. febrúar kl. 14 – 16.

Hlökkum til að sjá ykkur.
Hanna Jónsdóttir starfsmaður í Ásbyrgi.