Vísnagátan 10. október 2013

Við erum svo heppin hér á ritstjórn Stykkishólms-Póstsins að velunnarar blaðsins eru margir og víða um land. Fyrir margt löngu birtist á síðum blaðsins vísnagátur sem bárust okkur af Suðurlandinu og þegar sá lager tæmdist hvarf hún af þessum vettvangi. Margir hafa saknað þetta þáttar í blaðinu en geta nú tekið gleði sína á ný því nú hefur göngu sína vísnagáta á ný. Íbúar Dvalarheimilisins haf undanfarnar vikur verið í mikilli gátukeppni og lögðu til að Stykkishólms-Pósturinn og lesendur hans hefðu einnig tækifæri til að spreyta sig á gátunum. Um efni og innihald segja íbúar og starfsmenn Dvalarheimilisins að margar tengist bænum og íbúum hans. Hér birtist fyrsta gátan:

Hún var hér við landið laus
Hún var staðar prýði
Enginn sér þar bústað kaus
Hún er galdrasmíði

Margan daginn má hún þola
Átroðning og æsla kæti
Stendur vörð ef Norðan gola
Sýnir sig með hregg og læti

Ver hún bæði ból og byggðir
Vanda slíkan geymir hún
Veraldarinnar vænstu dyggðir
Geymir hún við bjargsins brún

Ást og gleði og unað veitir
Án þess að segja nokkrum frá
Yndislegt á sumar degi
Er að gista staðinn þá

Þessi gáta er eftir Gunnlaug Valdimarsson og skorar hann næst á Theodór Guðmundsson.