Vorferð Ásbyrgis

Þann 14. maí síðastliðinn fórum við í Ásbyrgi í vorferð þar sem við fórum með Gunna Hinriks og Benný á gamla skólabílnum og vorum í heilan dag í ferðalaginu.

Við komum við á Breiðabliki til að skila af okkur pokapöntun og skoðuðum markaðinn. Þaðan héldum við áfram í Borgarnes og skoðuðum Fjöliðjuna sem er vinnustaður fyrir fólk með fötlun líkt og Ásbyrgi er. Það var gaman að sjá muninn á vinnustöðunum og hitta annað fólk. Í sama húsi er dósamóttaka sem Fjöliðjan rekur.  Þar eru fleiri starfsmenn en í dósamóttökunni hér í Stykkishólmi og hún orðin örlítið tæknilegri sem var mjög áhugavert að sjá.

Við enduðum Borgarnes rúntinn á að fá okkur súpu og brauð í Geirabakarí, sem rann ljúflega niður eftir 4 tíma ferðalag. Við héldum áfram yfir Borgarfjarðarbrúna og tókum beygjuna upp á Akranes þar sem við byrjuðum á að koma við í Fjöliðjunni á Akranesi. Það var rosalega áhugavert þar sem þau eru með mjög frábrugðin verkefni en við og ekkert okkar, held ég hafi vitað að Fjöliðjan límir endurskinsmerkin á gulu vegstikurnar og sendir víða um land. Þau pakka niður prinspólóum í glæru pokana þar sem þau eru með 2-4 eða 6 saman og senda í fyrirtæki til Reykjavíkur sem kemur þeim áfram í búðirnar.

Þau hafa einnig stórt gróðurhús með alskonar plöntum og rækta grænmeti.

Þar í húsi er líka dósamóttaka og þénar staðurinn 42 milljónir á ári fyrir dósir.

Í Fjöliðjunni starfa 52 einstaklingar sem síðan eru einnig í hlutastörfum vítt og breitt um Akranes.

Ef þið hafið tækifæri á að heimsækja þau væri sá tími ekki nýttur til einskis.

Við komum við á sýningu á Görðum sem var mjög áhugavert að skoða en það var samt mjög gott að setjast niður á Galitó yfir pizzuhlaðborði þar sem við flest vorum orðin svöng eftir langt ferðalag. Eftir pizzuhlaðborðið var haldið heim og við komin aftur fyrir utan Ásbyrgi um 20:00 leitið þar sem við enduðum ferðina. Allir sáttir glaðir og pínu þreyttir, eftir vel heppnaða vorferð.

 

Jóhanna Ómarsdóttir starfsmaður Ásbyrgis