Vorið í loftinu

Það er vor í lofti,  – og fer ekki fram hjá neinum. Farfuglarnir eru komnir og vekja okkur með morgunsöng. Grasflatirnar fá á sig græna slikju, sem eykst ásmegin, svo grasið verður fagurgrænt, frá rótinni og upp.

[mynd]Það er vor í lofti,  – og fer ekki fram hjá neinum. Farfuglarnir eru komnir og vekja okkur með morgunsöng. Grasflatirnar fá á sig græna slikju, sem eykst ásmegin, svo grasið verður fagurgrænt, frá rótinni og upp. Grasrótin, sem er ofin saman af aðskiljanlegustu grösum og plöntum, klæðir landið mjúkum, en þó gríðarsterkum kufli. Styrkur hennar felst í fjöldanum, hver planta gegnir sínu hlutverki og tengist næstu plöntum með því að flétta saman sínar rætur við hinna. 
        Sú mynd sem hér hefur verið dregin upp er fyrirmyndin að hugmyndafræði L-listans, sem kennir sig við félagshyggju, lýðræði og samvinnu. Frá upphafi höfum við unnið fyrir opnum tjöldum og boðið öllum áhugasömum að taka þátt í starfinu. Það hefur svo sannarlega mælst vel fyrir hér í bæ, því ótrúlega margir hafa lagt gjörva hönd á okkar þverpólitíska plóg. Íbúalýðræðið virkar eins og segull á bæjarbúa, og hefur skapað bylgjuhreyfingu í átt til breytinga. Fólk vill eiga þátt í ákvörðunum og stefnumörkun bæjarfélagsins. Það er líka staðreynd að mest sátt verður um þær ákvarðarnir sem teknar eru á víðum grunni, með aðkomu fjöldans og þeim gengur best að hrinda í framkvæmd. Það er vegna þess að fólk finnur til hlutdeildar í þeim; þær eru ákvarðanir fólksins. Því er lykilatriði að allir geti fylgst með, og hafi auðveldan aðgang að öllum upplýsingum.
      Við þurfum líka að finna hentugar leiðir til þess að bæjarstjórnar-umræðan verði enn opnari. Okkur ber því skylda til þess að halda borgarafundi þegar taka á miklar ákvarðanir, sem snerta samfélagið allt. Þannig tryggjum við öllum plöntunum á grasflötum Stykkishólms næringu og vítamín til viðhalds og vaxtar. Látum hendur standa fram úr ermum. Það er komið vor!


                                                                          Hreinn Þorkelsson, í baráttusæti nr. 5 á L-listanum.