Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Yfirtaka reksturs bókasafns?

AQ7K1972Í Stykkishólms-Póstinum sem út kom 12. janúar 2017 er grein eftir Lárus Hannesson bæjarfulltrúa.

Í greininni kemur fram sú skoðun hans varðandi bókasafnið sem hann hefur margítrekað í ræðu og riti að „..fara hafi átt í samstarf við eigendur Bókaverzlunar Breiðafjarðar um samstarf eða yfirtöku á rekstri bókasafnsins…“

Á hugmyndinni eru a.m.k. eftirtaldir vankantar sem gera hana óframkvæmanlega:

  • Hún fer ekki saman við tilgang og meginsjónarmið bókasafnslaga sem m.a. skylda sveitarfélög til að reka bókasöfn í þágu almennings, banna að þau séu rekin í hagnaðarskyni og krefjast þess að starfsmenn bókasafna séu ráðnir af sveitarfélögunum.
  • Hún felur í sér mismunun og er brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Verðmætum bæjarins (almennings) væri ráðstafað til einkaaðila án auglýsingar. Umrætt samstarf eða yfirtaka hefði því þurft að setja í útboðsferli og jafnvel á evrópska efnahagssvæðinu.
  • Hún felur í sér að eignum bæjarins væri ekki ráðstafað á sem hagstæðastan hátt sbr. mat  KPMG.

Þannig virðist greinarhöfundur vilja að bæjarstjórn taki ákvörðun sem er í bága við bókasafnslög og stjórnsýslulög í þeim tilgangi að hygla völdum aðila á kostnað annarra bæjarbúa.

Það er umhugsunarvert að bæjarfulltrúi sem gefur sig út fyrir að vera vinstri maður gangi lengra en hægri öfgamenn í hugmyndum um einkavæðingu þegar kemur að einum af okkar grunnstoðum – rekstri Amtsbókasafnsins.

Hlutverk bæjarstjórnar er að gæta hagsmuna allra bæjarbúa en ekki hygla einstökum aðilum á kostnað allra hinna. Það hafa bæjarfulltrúar H listans að leiðarljósi.

Að lokum er rétt að halda því til haga að að það var fasteignin Hafnargata 7 sem var seld hæstbjóðanda en ekki bókasafnið eins og lesa má úr orðum Lárusar í umræddri grein.

Hafdís Bjarnadóttir

Forseti bæjarstjórnar