Yndislestur

Ágæti lesandi.

Eins og flestir hafa væntanlega fengið einhvern smjörþef af, stendur nú yfir lestrarátak í skólanum. Ég hef verið að reyna að standa mig og lesa fyrir dæturnar á kvöldin, og sjaldan líður sá dagur að ég líti ekki eitthvað í bók sjálfur. Mig langar í nokkrum orðum, að segja aðeins frá, glænýrri upplifun af bók, sem ég hef þó áður marg lesið í gegnum tíðina.  Fyrsta sumarið mitt á vinnumarkaði, sumarið 1974, var ég að vinna í Kaupfélags frystihúsinu. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá var Kaupfélags frystihúsið til húsa sunnan við  Austurgötuna í stóru gráhvítubyggingunni sem nú hýsir hluta af starfsemi Agustson. (og ef grant er skoðað stendur utan á húsinu „Hraðfrystihús KST „).  Sumarið 1974 var þarna rekin skelfiskvinnsla og voru all mikil umsvif.  Yfir há sumarið var þó stoppað og á þeim tíma vorum við strákarnir settir í það að gera frystiklefana klára fyrir sláturtíðina, en í Hraðfrystihúsi KST, var þá tekið við til frystingar og geymslu, kjöti af þeim gripum er slátrað var í sláturhúsinu sem þá var rekið á haustin úti á Reitavegi.  Það þurfti að umstafla og endurraða þeim birgðum sem enn voru í húsinu af kjöti, frá fyrra ári, og eins þurfti að afhríma og hreinsa frystiklefana. Þá var einnig framleiddur beituís í frystihúsinu og vorum við strákarnir settir í að moka ísnum í snigil þegar á þurfti að halda. Þetta var kalsasöm vinna og hef ég stundum haldið því fram bæði í gamni og alvöru að mér hafi aldrei fundist eins kalt á Íslandi og sumarið 1974.  Þetta sumar var lesin í Útvarpinu bókin, „Í Rauðárdalnum“, eftir Vestur Íslenska rithöfundinn  Jóhann Magnús Bjarnason, en við hann kannast flestir sem komnir eru um miðjan aldur.  Við strákarnir, sem vorum fimm ef ég man rétt, ég  og bræður mínir , Heimir og Steinþór ásamt þeim Þresti og Jóhanni Gunnlaugssonum urðum alveg heillaðir af þessari sögu og beittum öllum brögðum til að koma því þannig fyrir að við gætum tekið okkur pásu á þeim tíma sem sagan var lesin í útvarpinu um miðjan dag.  Verkstjóranum okkar, Haraldi Ísleifssyni, var framan af nokkuð uppsigað við þennan óvænta bókmennta áhuga okkar, enda maðurinn með afbrigðum starfssamur og lítið gefinn fyrir slugs.  Mér er ekki örgrant um að Halli hafi talið okkur hafa fundið þarna upp alveg glænýja aðferð til að svíkjast um í vinnu og sýndi þessu tortryggni framan af.  Þegar á leið söguna fór Halli að sjá í gegnum fingur sér við okkur og ég er ekki fjarri því að hann hafi verið kominn á kaf í æfintýraheim Nýja Íslands áður langt um leið. Halli Ísleifs var mikill vinur minn og kenndi mér margt sem vel hefur dugað. Blessuð sé minning hans.   Einhverjum árum seinna kom tröppusölumaður í Hólmin og var með ritsafn Jóhanns M Bjarnasonar á boðstólum. Honum tókst að pranga ritsafninu inn á mig, aðallega út á endurminningarnar um útvarpslesturinn  sem segir frá hér að ofan. Síðan þá hef ég marg lesið „Í Rauðárdalnum“ og hef eins og gengur, búið til í eigin höfði allt sem fyrir augu ber í bókinni.   Bókin „Í Rauðárdalnum“ fékk núna í haust alveg nýtt líf í mínum huga og tildrögin að því voru þau að ég las ofan í kjölinn aðra  bók sem ég átti upp í hillu en hafði ekki upplifað áður með þessum hætti.  Bókin „Annað Ísland“ eftir Guðjón Arngrímsson, er stórfróðleg og stórskemmtileg lýsing á söguslóðum Vestur Íslendinga, bæði í borgum og sveitum.  Að lesa fyrstu kaflana  í „Rauðárdalnum“, þar sem lýst er komu söguhetjunnar til Winnipeg og ferð hennar um borgina , verður sérstök upplifun og hreinn yndislestur , eftir að hafa lesið um borgina í bók Guðjóns, og skoðað ljósmyndir og uppdrætti af þeim stöðum er koma fyrir í skáldsögunni góðu. Sagan einhvern veginn  lifnar við og bólgnar út og fær nánast á sig yfirbragð kvikmyndar þegar hún er lesin á þessum forsendum. Ég ráðlegg þeim sem áhuga hafa fyrir hinum Vestur Íslenska þætti þjóðarsögunnar  að lesa bækur Guðjóns Arngrímssonar „Nýja Ísland og „Annað Ísland“ og skella sér síðan á „Í Rauðárdalnum“ að því loknu.

Með lestrarkveðjum . Ægir Jóhannson.