Ýtuævintýrið á golfvellinum

Nú í sumar hafa verið miklar framkvæmdir við Golfvöllinn hér í Stykkishólmi. Framkvæmdir hafa þurft að aðlaga sig ýmsum þáttum sem hafa breyst eða ekki verið eins og gert var ráð fyrir í upphafi, t.d. veðráttu og undirlagi.

Nú í sumar hafa verið miklar framkvæmdir við Golfvöllinn hér í Stykkishólmi. Framkvæmdir hafa þurft að aðlaga sig ýmsum þáttum sem hafa breyst eða ekki verið eins og gert var ráð fyrir í upphafi, t.d. veðráttu og undirlagi. Eins og flestir vita er svæðið mjög erfitt yfirferðar og því erfitt að komast um og vinna þar á stórum og afkastamiklum vinnuvélum. En menn hafa lagst á eitt við að leysa þau vandamál sem upp hafa komið, þar sem allir hafa stefnt að sama markmiði og haft sameiginlega hagsmuni af því að leysa þau á sem farsælastan hátt fyrir alla hlutaðeigandi. Þannig hefur verið unnt að komast í gegnum hinar ýmsu þrautir og vandamál.
     
Eins og gerist og gengur þá geta orðið óhöpp, eins og gerðist sl. sunnudag. Þá lenti verktakinn í því að ýta, sem var að vinna við framkvæmdir golfvallarins, sökk í mýrina. Þurfti þá að stöðva allar aðrar framkvæmdir til að reyna bjarga þeim verðmætum sem lágu undir skemmdum í mýrinni, þ.e. ýtunni sem var að hverfa ofan í fenið. Þurfti stórtækar aðgerðir til að ná ýtunni upp og öðrum tækum var hætt með því fara með þau í mýrarfenið. Áhersla var lögð á að moka frá ýtunni svo hún fylltist ekki af vatni og drullu því þá hefði ekki verið unnt að komast inn í hana og gangsetja vélina til að koma henni upp úr dýinu. Ýtan er það stór og þung að ekki var möguleiki á að draga hana upp án þess að nýta eigið vélarafl hennar. Ekki gengu þær framkvæmdir eftir björtustu vonum og drógust björgunaraðgerðir fram eftir nóttu. Lokaúrræðið var að grafa skurð niður að ýtunni og þurfti þá að hafa hraðar hendur svo skurðurinn fylltist ekki af vatni áður en hann væri tilbúinn. Vildi nú ekki betur til en svo að vakthafandi lögreglumönnum fannst réttast að stöðva björgunaraðgerðir þar sem langt var liðið á nóttina. Þótti þeim meira en sjálfsagt að fórna einni ýtu fyrir næturkyrrðina. Stöðvuðu þeir vinnuvélarnar, sem unnu við björgunaraðgerðirnar, með valdi og hótuðu að handtaka og fangelsa mennina sem að björguninni stóðu, hlýddu þeir ekki skipunum. Verktakinn reyndi að útskýra að um björgun á miklum verðmætum væri að ræða, en skeyttu þeir því engu og bentu mönnum á að hafa samband við lögfræðing. En færustu lögfræðingar hefðu ekki bjargað eignartjóni á ýtunni þessa nótt, og það mátti öllum á staðnum vera ljóst! Lokaúrræði verktakans var að ónáða yfirlögregluþjóninn, (og því miður hans fjölskyldu einnig) með því vekja hann um miðja nótt og lýsa fyrir honum því neyðarástandi sem var við björgunaraðgerðirnar, þar sem aðgerðir undirmanna hans voru búnar að valda umtalsvörðum töfum og stórauknu tjóni á verðmætunum sem var verið að bjarga. Til allrar hamingju er yfirlögregluþjóninn skynsamur maður og sá hann í hendi sér, þegar hann kom á staðinn, og hafði rætt við verktakann, að ekki væri annar möguleiki í stöðunni en að bjarga því sem bjargað yrði og leyfði því áframhaldandi björgunaraðgerðir. Því miður fyrir verktakann, og aðra þá sem óskuðu eftir því að aðgerðirnar tækju enda sem fyrst, þá töfðu þessar aðgerðir lögreglunnar björgunina um fleiri klst. og ollu auk þess umtalsverðum auknum skemmdum á ýtunni þar sem hún fylltist af vatni og drullu á meðan lögreglumennirnir stóðu vörð um að björgunaraðgerðum væri ekki haldið áfram. Hefðu björgunaraðgerðir tekið mun skemmri tíma, og tjón orðið mun minna, ef vakthafandi lögreglumenn hefðu haft sömu mannkosti til að bera og yfirlögregluþjónninn.
     
Þessar aðgerðir lögregluþjónanna vekja upp ýmsar spurningar um það hvernig kröftum þeirra og valdi sé varið, og í þágu hverra? Einnig hvaða ábyrgð lögregluembættið beri á því tjóni sem hlýst af gjörðum lögregluþjóna? Maður veltir fyrir sér ef trilla væri að sökkva í höfninni, hvort lögreglan myndi þá banna björgunaraðgerðir og dælingu úr trillunni sem væri að sökkva til að raska ekki næturkyrrð íbúa og ferðamanna í Stykkishólmi? Sér undirrituð ekki mun á því hvort ýta sökkvi til botns í 4ra metra djúpu mýrarfeni eða að trilla sykki til botns í höfninni!
    
Á sama tíma og lögregluþjónarnir tóku sér stöðu uppi á beltagröfunni, og stöðvuðu þannig björgunaraðgerðirnar með handtökuhótunum og yfirgangi, notuðu því miður einhverjir óprúttnir náungar tækifærið og brutust inn í Myndbandsleiguna Ásinn og stálu þar öllu steini léttara. Það er sannarlega mikið tjón sem eigendurnir urðu fyrir þessa nótt og gleðilegt hefði verið ef starfskraftar lögreglunnar hefðu getað komið í veg fyrir það tjón í stað þess að valda tjóni á öðrum stað. Að sjálfsögðu hefðu þeir þó ekki getað stöðvað þjófana nema einhverjir hefðu séð til þeirra og kallað lögregluna út, þar sem þeir voru eingöngu á bakvakt, en það hefði óneitanlega verið óskastaðan varðandi starfskrafta lögreglunnar.  
    
Vill verktaki koma á framfæri við þá bæjarbúa og ferðamenn, sem ónæði hlutu af ofangreindum björgunaraðgerðum, afsökunarbeiðni en vonast hann jafnframt til að þeir skilji þá neyð sem hann var í þessa nótt.
     
Þess má geta að ýtan varð fyrir miklu tjóni. Hluta tjónsins var ekki hægt að koma í veg fyrir, en það aukna tjón sem varð vegna stöðvunar björgunaraðgerða af hálfu lögreglunnar er mikið og alvarlegt þar sem rafmagnsbúnaður (stjórntölvur) í ýtunni skemmdist vegna vatns og drullu. Að auki er ekki fyrirséð það tjón sem hlýst af því að tækið er ekki vinnufært og ekki er vitað hve lengi það ástand mun vara.
     
Nú þykir eflaust einhverjum að óþarflega nákvæmar lýsingar séu á þessu atviki en þar sem ég hef reynslu af því að stytta mál mitt um of, og gefa þannig færi á því að lesið sé allt mögulegt og ómögulegt á milli línanna, þá ákvað ég að segja hlutina nákvæmlega eins og þeir komu mér fyrir sjónir
     
Að lokum þá vil ég taka það fram að ég er mikill friðarsinni og styð alls ekki tilhæfulausar árásir á fólk, hvorki á ritvellinum né á vettvangi, og vona ég að enginn skilji þessi skrif á þann hátt. Stundum er bara ekki hægt að kyngja og þegja!

Bestu kveðjur

Elín Bergmann Kristinsdóttir