Sjávarútvegsráðherra heimsótti Snæfellsnes

Magnús Bæringsson vinnslustjóri hjá Ágústsson sýnir ráðherra vinnsluna í Stykkishólmi.
Magnús Bæringsson vinnslustjóri hjá Ágústsson sýnir ráðherra vinnsluna í Stykkishólmi.

Í lok síðustu viku heimsótti Sigurður Ingi fyrirtæki á Snæfellsnesi og fundaði með Snæfelli, félagi smábátasjómanna á svæðinu og fulltrúum frá Útvegsmannafélagi Snæfellsness félagi stærri útgerða. Ráðherra var m.a. kynnt harðfiskverkun sem byggir á þurrkun í klefa, hvernig unnið er úr síld veiddri af smábátum á svæðinu auk þess að heimsækja stærri fyrirtæki. Á ferð yfir Kolgrafafjörð var ákveðið að stoppa við hjá ábúendum á Eiði og voru þar góðar móttökur. Rædd var staðan sem kom upp við síldardauðann sl. vetur og þeir kostir sem fyrir liggja með það að markmiði að koma í veg fyrir slík endurtekin umhverfisslys.
Á fundum með fulltrúum minni útgerðanna voru ýmis mál borin upp. Má þar fyrst nefna mál tengd grásleppuveiðum en Snæfellsnesið er eitt helsta útgerðarsvæði grásleppu á landinu. Var þar gagnrýnt hvernig staðið er að rannsóknum og ráðgjöf á grásleppu, með tilliti til þess að rannsóknir eru gerðar með togveiðarfærum í stað nets líkt og notað er við veiðarnar og gefa því að mati grásleppuveiðimanna ekki rétta mynd af stofninum. Var eindregin ósk að farið verði yfir það verklag sem er að baki ráðgjafarinnar. Ráðherra var gerð grein fyrir ósk félagsins um aukin kvóta til kaups fyrir síldveiðar en undanfarin ár hefur almennt verið aukið við hann og er nú upphafskvótinn allur seldur. Þá var sett fram sú ósk að sá hluti makrílhlutar sem gengi til smábáta yrði ekki hlutdeildasettur á báta og komið á framfæri tillögum að bættu strandveiðifyrirkomulagi og ósk um yfirlýsingu þess efnis að þær yrðu aldrei kvótasettar.

Fundurinn með stærri útgerðaraðilunum var ekki síður gagnlegur, líflegar umræður um þróun regluverks við skiptingu makrílveiða fóru fram og ýmsum hugmyndum um hvernig vinnu við hlutdeildasetningu yrði best háttað kastað á milli. Ráðherra skýrði frá gangi vinnu við innleiðingu samningaleiðar og álagningu veiðigjalda og tók á móti athugasemdum og tillögum þar að lútandi. Nokkuð var rætt um eftirlitsmál, og þarna kom fram í máli manna líkt og á mörgum öðrum stöðum, að full þörf væri á að skipuleggja og samþætta eftirlit á milli stofnana ráðuneytis til að ná fram bættum árangri.

Af vef ráðuneytisins.  www.sjavarutvegsraduneyti.is