Stærsti róður til þessa

Gullhólmi SH gerði góðan róður á dögunum þegar þeir lönduðu 30 tonnum í Ólafsvíkurhöfn. Gullhólmi sem gerður er út frá Stykkishólmi af Agustson ehf hefur undanfarið landað í Ólafsvík. Þennan dag fóru þeir út á Flákahornið á Breiðafirði, lögðu 2 lagnir alls 45 þúsund króka sem gerir um 100 bala. Á þetta fengu þeir 30 tonn sem gerir um 300 kíló á balann. Svo á sunnudaginn lönduðu strákarnir 24.7 tonn sem þeir fengu á 34 þúsund króka sem er uppreiknað í 68 bala 500 króka sem gerir 363 kg á bala sem þykir gott. Allur fiskurinn var fluttur inn í Stykkishólm til vinnslu. Voru þessir góðu róðrar vel þegnir en undanfarið hefur verið mikil ótíð og ekki gefið á sjó vegna veðurs. Gullhólmi var smíðaður árið 2015 og var þessi 30 tonna róður hans stærsti til þessa. Á Gullhólma eru tvær fimm manna áhafnir sem skiptast á viku og viku í senn.
þa/Bæjarblaðið Jökull