Þriðjudagur , 16. október 2018

Krabbameinsleit í Stykkishólmi 2015

GetAsset.ashxÁgætu íbúar.

Dagana 18.-20. nóvember verður hópleit á heilsugæslunni hér í Hólminum. Konur á aldrinum 23-65 ára ættu að vera búnar að fá bréf þar sem þeim er boðið að fá tíma í sýnatöku frá leghálsi. Myndataka á brjóstum er boðin konum eftir 40 ára aldur.

Að undanförnu hefur Krabba-meinsfélag Íslands staðið fyrir átaki til þess að hvetja konur til að mæta í leghálskrabbameinsleit. Þátttakan á Íslandi hefur farið minnkandi undanfarin ár og er nú víða undir 50%. Sérstaklega hefur þátttakan dregist saman á landsbyggðinni. Á árum áður mættu konur yfirleitt mun betur úti á landi, en nú hefur það snúist við. Sú breyting hefur orðið á að nú framkvæma ljósmæður leghálssýnatökuna, og er það nú þegar byrjað á Leitarstöð Krabbameisfélagsins og á heilsu-gæslustöðvum víðast hvar um landið. Þessi háttur er hafður á í mörgum nágrannalöndum okkar og þar er þátttakan mun meiri.

Leghálskrabbameinsleit skilar góðum árangri svo framarlega sem konur mæta. Dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hefur lækkað um 90% síðan skipulögð leit hófst.

Allar konur á aldrinum 23-65 ára sem hafa einhvern tímann lifað kynlífi ættu að þiggja boð um leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti vegna þess að það er ein mikilvægasta heilsuvernd sem konum stendur til boða.

Regluleg leghálskrabbameinsleit hefur álíka heilsuverndandi áhrif eins og bólusetningar barna.

Krabbamein í brjóstum er enn algengasta krabbamein kvenna og því brýnt að skoða einnig fyrir því. Allar konur sem finna hnút í brjósti ættu að leita læknis strax. Að greina sjúkdóm á frumstigi eykur líkur á bata. Að þessu sögðu vil ég hvetja allar konur sem fengið hafa bréf frá leitarstöð Krabbameinsfélagsins að bóka tíma sem fyrst. Síminn er 4321200

Við tökum vel á móti ykkur.

Kveðja, Brynja Reynisdóttir yfirhjúkrunarfræðingur