Óbreytt útsvar, skipulagsmál o.fl.

Bæjarstjórnarfundur var haldinn 23.11.2017 s.l. í Stykkishólmi. Mörg mál voru til afgreiðslu og var m.a. fjallað um námskeiðshald undir heitinu „Að starfa í sveitarstjórn“ og mun námskeið á vegum Ráðrík ehf verða haldið í janúar n.k. um það efni. Samþykkt var að styrkja UMFG vegna skíðasvæðis í Grundarfirði um 200.000kr. og Snæfell um 2.000.000 auk frítíma í íþróttamiðstöð. Í umræðum um drög að reglugerð um öflun sjávargróðurs gerir bæjarstjórn ekki athugasemdir við þau til Alþingis. Lóðamál við Aðalgötu 7 og 17 eru til umræðu af mismunandi ástæðum. Sótt er um breytingu á aðalskipulagi v. Aðalgötu 7 og að hún verði skilgreind sem verslunar- og þjónustulóð og hluti af miðsvæði. Skipulags- og byggingarnefnd mun fjalla um málið á næsta fundi og að lokinni þeirri afgreiðslu fer það til Skipulagsstofnunar. Aðalgata 17 er til umræðu vegna afturköllunar á úthlutun lóðarinnar sem úthlutað var í janúar 2015. Fyrirspurnir og umsókn um lóðina hafa borist til Stykkishólmsbæjar skv. fundargerðinni þrátt fyrir að lóðin hafi ekki enn verið innkölluð eða auglýst laus til umsóknar. Núverandi lóðarhafi er fyrirtækið Vil ehf og birtust teikningar af fyrirhuguðum framkvæmdum þeirra á lóðinni á Facebook fyrir stuttu. Umsókn um byggingarleyfi fyrir þær byggingar hafa einnig verið sendar Stykkishólmsbæ skv. heimildum frá lóðarhafa.

Samþykkt var að útsvar yrði óbreytt á milli ára á þessum fundi eða 14,37% á árinu 2018 og skiptist þannig: Fasteignaskattar, lóðarleiga, holræsagjald og sorphirðugjöld. Fasteignaskattur A-flokkur 0,48%. Fasteignaskattur B-flokkur 1,32%. Fasteignaskattur C-flokkur 1,57%. Lóðaleiga íbúðarhúsnæðis 1,10%.
Lóðarleiga atvinnuhúsnæðis 2,15%. Lóðarleiga ræktunarland 6,00%. Holræsagjald íbúðarhúsnæði 0,20%.

Holræsagjald atvinnuhúsnæði 0,24%. Sorphirðu – og/eða sorpeyðingargjöld pr. íbúð 47.700 kr.
Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar fyrir árin 2018-2021 fór fram. Áætlunin er samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta en minnihluti sat hjá.