Samkór Reykjavíkur tónleikar


Nánar um viðburð


Samkór Reykjavíkur fagnar 40 ára starfsafmæli sínu með tónleikum í Stykkishólmskirkju laugardaginn 26. maí kl: 16.00.

Kórinn var stofnaður 1978 og hét þá Kór Snæfellingafélagsins í Reykjavík en fékk síðar nafnið Snæfellingakórinn í Reykjavík. Friðrik S Kristinsson einn okkar fremsti kórstjórnandi í dag og Hólmari var einn af fyrstu stjórnendum kórsins og stjórnaði kórnum farsællega í ein 20 ár.

Það var síðan árið 2004 að nafninu var breytt í Samkór Reykjavíkur, en þó að nafninu hafi verið breytt eru ennþá félagar í kórnum sem eiga ættir sínar að rekja á Snæfellsnesið.

Þar sem fyrsta söngferð kórsins var farin vestur á Snæfellsnes fyrir 40 árum síðan, fannst kórfélugum tilvalið að fara á heimaslóðir hans núna og leyfa Snæfellingum að heyra og njóta fallegrar tónlistar.

Á tónleikunum mun kórinn líta yfir farinn veg og flytja lög sem hafa verið kórfélugum kær og eftirminnileg í gegnum tíðina. Á efnisskránni má finna gömul íslensk sönglög,  íslenska dægurlagatónlist sem og erlenda söngleikjatónlist.

Stjórnandi kórsins er Guðrún Árný Guðmundsdóttir og undirleikari er Arnhildur Valgarðsdóttir.

Aðgangseyrir er 1000 krónur en frítt fyrir börn 16 ára og yngri.

Kórfélagar vonast eftir að sjá sem flesta á laugardaginn og eiga notalega stund saman.