10 ára afmæli Lífsbjargar

Laugardaginn 6. maí síðast­liðinn hélt Björgunarsveitin Lífs­björg upp á tíu ára afmæli sitt. Mættu fjölmargir í Björgunar­stöðina Von til þess að fagna afmælinu með björgunar­sveitinni.

Eins og venja er í veislum var boðið upp á dýrindis kræsingar sem reiddar voru fram af Slysavarnakonum í Ólafsvík og á Hellissandi. Afmælisbarninu bárust góðar gjafir sem nýtast munu vel í framtíðinni. Ræður voru fluttar og einn þeirra sem bað um orðið var fyrsti formaður Lífsbjargar Davíð Óli Axelsson. Sagði hann meðal annars í ræðu sinni að í dag væri farinn að sjást hinn raunverulegi árangur af sameiningu sveitanna tveggja sem Lífsbjörg byggir á, Slysavarnadeildinni Björg á Hellissandi sem stofnuð var árið 1928 og Slysavarnadeildinni Sæbjörgu úr Ólafsvík sem stofnuð var árið 1930. Lífsbjörg væri í dag öflugur félagsskapur vel tækjum búinn í glæsilegri björgunarstöð.

Að sameina tvær björgunarsveitir í eina er ekki einfalt mál og sagði Davíð Óli meðal annars í ræðu sinni að þær hefðu verið ófáar vinnustundirnar og fundirnir sem þurfti til þess að koma þessu heim og saman og mikilvægt að minnast þeirra sem á undan komu og byggðu þann trausta grunn sem Lífsbjörg er byggð á í dag.

Meðfylgjandi mynd er af afhendingu hjartastuðtækis sem Fiskmarkaður Snæfellsbæjar gaf sveitinni.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli