52% hlynntir sameiningu

Í könnun sem íbúar Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar og Grundarfjarðarbæjar voru hvattir til að taka varðandi sameiningu sveitarfélaganna voru 52% hlynntir sameiningu.

Hægt var að taka könnunina á vefnum dagana 22. júní – 6. júlí.

Alls tóku 381 þátt í könnuninni, samtals eru íbúar sveitarfélagana tæplega 2.100.

Greiningarvinnan er í höndum KPMG.

Tíma þarf til þess að vinna úr gögnunum þar sem margar spurningarnar voru opnar og gáfu fólki færi á að rita sína skoðun og útskýra svör.

Könnunin var nafnlaus og opin hægt var að taka hana oftar en einu sinni úr hverri tölvu svo að heimilisfólk gæti svarað hvert og eitt úr einni tölvu. Úrvinnsla hrágagna sýna engin merki um að kannanir hafi verið endurteknar.

Í tilkynningu frá sameiningarnefnd segir: „Nýlega var gerð netkönnun meðal íbúa í tengslum við hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Þar var m.a. spurt um afstöðu íbúa til þjónustu sveitarfélaganna í dag og hvaða áhrif möguleg sameining gæti haft á þjónustuna til framtíðar. Þátttaka í netkönnuninni var góð, en alls bárust svör frá 381 þátttakanda.
Þessi netkönnun var fyrsti hluti sviðsmyndagreiningar sem fer fram síðla sumars. Megintilgangur þessarar vinnu er að horfa til framtíðar og greina hvernig samfélag og þjónustu íbúarnir vilja búa í til lengri tíma litið.

Nefndin segir einnig í tilkynningu að unnið verði í samráði við íbúa hvernig unnið verði að sameiningu: „Þannig verða dregnir fram kostir og gallar sameiningar með aðstoð íbúa og fulltrúum sveitarstjórnanna þriggja. Á íbúafundum í byrjun september verða niðurstöður netkönnunarinnar rýndar og sviðsmyndir samfélagsins ársins 2030 fullmótaðar. Markmiðið með sviðsmyndavinnunni er að meta kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna miðað við stöðuna í dag og ekki síður að skoða stöðu þeirra í framtíðinni í takt við auknar kröfur íbúa og stjórnvalda til sveitarfélaga.”

Íbúar sveitarfélaganna þriggja fá kynningu á niðurstöðum sviðsmyndavinnunnar ásamt ítarlegum greiningum á málaflokkum og fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélögin á haustmánuðum.

Undir tilkynninguna rita fulltrúar sameiningarnefndar: Hilmar Hallvarðsson Oddviti Helgafellssveitar, Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri Grundarfjarðarbæajr og Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar.