Aðalfundur Stykkishólmssafnaðar

Magndís og Unnur

Aðalfundur sóknarnefndar Stykkishólmskirkju var haldinn 15.maí s.l.

Venjuleg aðalfundarstörf fóru þar fram. Fram kom í máli formanns, Unnar Valdimarsdóttur, að kirkjusókn hefði verið góð og um kirkjuna er dagleg umferð fólks. Starfsemi er fjölbreytt, messuhald, kirkjuskóli, unglingastarf, starf með eldri borgurum, mömmumorgnar, kórastarf og starf Listvinafélagsins. Rætt var um framkvæmdir við kirkjuna og eru þakviðgerðarmenn væntanlegir í lok maí til að fara í skipti á þakpappa og lokafrágang við þak. Náðst hefur umtalsverður sparnaður í rekstri hússins með útskiptum á varmaskipti og þegar viðgerðum verður lokið næst að öllum líkindum fram sparnaður í rafmagnsnoktun.

Farið var yfir mál Baulárvallajarðarinnar sem er í eigu kirkjunnar. Stefnt er að málsmeðferð fyrir dómi í haust þar sem ekki náðust sættir aðila málsins. Styrkur hefur fengist í það verkefni frá Biskupsstofu.

Lionsklúbbi Stykkishólms var þakkað fyrir útsendingarbúnað sem klúbburinn gaf til kirkjunnar sem hefur mælst vel fyrir.

Kirkjugarðurinn hefur nú sína eigin kt. eins og reglur gera ráð fyrir og kosin var stjórn kirkjugarðsins.

Út úr sóknarnefnd nú steig Unnur Valdimarsdóttir sem setið hefur í nefndinni í 32 ár og síðustu ár sem formaður. Var henni þakkað óeigingjarnt starf fyrir söfnuðinn. Kosið var þannig um eitt sæti aðalmanns og var Guðrún A. Gunnarsdóttir kjörin einróma. Kosið var um tvö sæti varamanna og voru Agnar Jónasson og Sigrún Þórsteinsdóttir kosin í þau. Nýr formaður sóknarnefndar nú er Áslaug I. Kristjánsdóttir en hún gegnir einnig starfi kirkjuvarðar frá s.l. hausti.