Aðalsafnaðarfundur Stykkishólmssafnaðar

Aðalsafnaðarfundur var haldinn 22. apríl s.l. Fram kom í máli sóknarnefndarformanns Áslaugar Kristjánsdóttur að safnaðarstarf hefði verið með hefðbundnum hætti s.l. ár. Hugmyndir eru uppi um endurskoðun tímasetningar á kirkjuskólanum sem verið hefur á sunnudögum um langan tíma. Gjafir til kirkjunnar á síðasta ári voru 1.071.000 kr. Er þar um að ræða áheit á kirkjuna, innkoma í söfnunarkassa í anddyri og sala minningarkorta. Í máli sóknarnefndarformanns kom fram að viðgerðir á þaki kirkjunnar eru komnar á lokastig og aðeins frágangur eftir, þegar fyrirliggjandi gluggaviðgerð er búin. Ráðist verður í viðgerð á kórglugganum, eða bogaglugganum fyrir ofan altari en mikill leki hefur borist þar um. Sú viðgerð fer fram í ágúst og mun kirkjuskipið að öllum líkindum vera lokað á meðan en opið í sýningarsal í safnaðarheimili. Þakviðgerðir sem ráðist var í fyrir örfáum árum hafa borið góðan árangur í lekavandamálum sem barist hafði verið við í mörg ár þar á undan. Áslaug lýsti samstarfsverkefni Skipavíkur, Grunnskólans og Stykkishólmskirkjugarðs. Nemendur í smíðum á næsta ári eiga þess kost að smíða rafmagnskassa fyrir kirkjugarðinn sem þarfnast endurnýjunar við úr efni sem Skipavík gefur til verkefnisins. Var mikil ánægja með þetta framtak.

Magndís Alexandersdóttir er gjaldkeri sóknarnefndar og fór yfir reikninga safnaðarins og kirkjugarðsins. Staðan ágæt en verulega hefur dregið saman í minningargjöfum til kirkjunnar. Sturla Böðvarsson bæjarstjóri bað um orðið og greindi frá tildrögum samnings sem gerður var við söfnuðinn um afnot af Stykkishólmskirkju fyrir stofnanir bæjarins árið 2015. Bæjarstjóri fór yfir sögu málsins sem nær aftur til 1999 þegar skuldir kirkjunnar voru færðar á viðskiptareikning kirkjunnar hjá Stykkishólmsbæ og bærinn tók að sér að greiða lánið. Til hafi staðið að færa niður skuldastöðu kirkjunnar hjá Stykkishólmsbæ síðan en það hefði verið gert óreglulega og því stæði skuldin enn, talsvert há, í bókum safnaðarins. Í máli bæjarstjóra kom fram að skuldin ætti að færast niður en jafnframt að samningur um afnot af kirkjunni hefði verið endurnýjaður í vor m.a. vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem söfnuðurinn stæði frammi fyrir. Til standi að greiða fyrir afnot af húsinu en ef Stykkishólmsbær byggi tónlistarhús í samkeppni við kirkjuna þá breytist forsendur verulega. Af hálfu Stykkishólmsbæjar stendur til að greiða fyrirfram fyrir árið 2019 vegna framkvæmda við kórglugga.

Farið var yfir framkvæmda- og fjárhagsáætlun næsta árs og starfsemi Listvinafélagsins s.l. ár og dagskrá sumarsins. Fyrirspurn úr sal varðaði Baulárvellina og kom fram í máli sóknarnefndar að málið hefði verið tekið fyrir í héraðsdómi s.l. haust og eftir auglýsingar óbyggðanefndar var erindi sent þangað. Ekki er að vænta meiri frétta fyrr en næsta haust í þeim málum.

am/frettir@snaefellingar.is