Æfingaferð Víkings til Spánar

Meistaraflokkur karla hjá Vík­ingi var eitt af 32 meistaraflokks­liðum sem fóru erlendis í æfinga­ferð fyrir Íslandsmótið í sumar. Í hópnum sem fór til Pinatar á Spáni dagana 9. til 19. apríl voru rúmlega 20 leikmenn, þjálfarar og fararstjórar.

Hópurinn tók þó smá breyt­ingum á meðan á ferðinni stóð. Hilmar Hauksson og kona hans Sigurbjörg Jónsdóttir hófu leik sem fararstjórar en Gunnar Helgi Baldursson kom og tók við því hlutverki þegar ferðin var hálfnuð. Þorsteinn Már Ragnars­son eignaðist stúlku nokkrum dögum fyrir áætlaða brottför og kom hann því seinna til móts við hópinn á Spáni. Einnig mætti kunnuglegt andlit á svæðið, Alexis Egea en hann mun spila með Víkingi í sumar. Þessu til viðbótar voru svo þrír spænskir leikmenn til skoðunar í ferðinni og fengu þeir að spreyta sig bæði á æfingum og í leikjum liðsins. Stóðu þeir sig með prýði og mögulega fá einhverjir þeirra að sýna sig á Ólafsvíkurvelli í sumar.

Uppleggið í ferðinni var hefðbundið, æft var einu sinni til tvisvar á dag flesta daga. Uppi­staðan í æfingum ferðarinnar var taktík og leikskipulag og var það kærkomið bæði fyrir þjálfara og leikmenn að hafa allan hópinn saman til æfinga. Auk þess lék liðið tvo leiki, þann fyrri gegn Stjörnunni og endaði hann 0-0. Seinni leikurinn var gegn Kefla­vík, urðu úrslitin þar 3-­1 Víkingi í vil.

Þar sem um 10 daga ferð var að ræða gafst örlítið svigrúm til smá slökunar. Fengu leik­menn nokkrum sinnum frí frá æfingum og nýttu þeir þann tíma vel á ströndinni, við sundlaugarbakkann eða í mollinu. Það voru sælir og sólbrúnir leikmenn Víkings Ó sem snéru til baka úr vel heppnaðri æfingaferð fullir tilhlökkunar fyrir átök sumarsins og það styttist í þau. Víkingur Ólafsvík hefur leik í Pepsídeildinni þann 30. apríl þegar þeir mæta Val í 1. umferð á heimavelli Vals.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli