Ánægðir Berlínarfarar

Mynd fengin af vef Fjölbrautaskólans

Tæplega 30 nemendur úr FSN fóru ásamt Hólmfríði Friðjónsdóttur þýskukennara og Lofti Árna Björgvinssyni enskukennara til Berlínar dagana 21. – 25. apríl. Ferðalagið hófst aðfararnótt föstudagsins 21. apríl og lenti hópurinn í samgönguvandræðum strax eftir lendingu þegar lest sem átti að ferja þau á hótelið gekk ekki. Með klókindum náðu þau þó að komast á leiðarenda og setti þetta ekki tóninn fyrir ferðina sem framundan var.

Nemendur skoðuðu margt í Þessari sögufrægu borg. Þau fengu sinn skammt af menningu, listum og vísindum á söfnum og eins og góðum Íslendingum í útlöndum sæmir kíktu þau einnig í verslanir.

Nemendur lærðu um sögu fyrri tíma í Þýskalandi, m.a. með heimsókn í Sachsenhausen fangabúðirnar, þar sem Leifur Müller dvaldi á stríðsárum, og þau skoðuðu einnig það sem eftir stendur af Berlínarmúrnum. Þau urðu líka vitni að mótmælum og kröfugöngum svo það mætti segja að þau hafi lítillega fengið sögu nútímans beint í æð.

„Í heildina gekk ferðin dásamlega vel og það er ekki yfir neinu að kvarta. FSN-ingar báru fána skólans með sóma og komu allir til baka með góðar minningar úr þessari merkilegu menningarborg”, segir Loftur í skemmtilegum pistli sem lesa má í heild sinni á vef Fjölbrautaskólans hér.