Aprílgabb í gær (og fleiri hugsanlegar fyrirsagnir)

Frétt sem birtist hér á vefnum í gær sem fjallaði um leit framleiðslufyrirtækis að aukaleikurum í tónlistarmyndband var aprílgabb.

Fáir hafa eflaust gengið yfir þröskulda vegna þess en það varð fyrir valinu fyrir það að vera sæmilega trúanlegt.

Upp komu margar hugmyndir um göbb á skrifstofunni og er óhætt að segja frá þeim hér og nú enda ólíklegt að þau verði notuð sökum þess hversu fáránleg þau eru.

Geimverur lenda á Snæfellsjökli – Augljóst gabb, klassískt engu að síður.

S-hópurinn kaupir upp fasteignir í Stykkishólmi – Nýliðnir atburðir í fréttum skapa oft einhvern trúverðugleika í göbbunum, en tæplega hefði einhver hlaupið af stað.

Stjarnan, Skallagrímur og Keflavík samþykkja að gefa Snæfelli bara bikarinn – Leikmenn vilja komast fyrr í sumarfrí og ákveða að sleppa bara úrslitunum. Sigurstranglegasta liðið tekur þetta bara strax.

Fótboltavöllur nýttur undir parhúsalóðir – Vegna takmarkaðrar notkunnar á vellinum í Stykkishólmi og vöntun á íbúðalóðum hefur verið ákveðið að bjóða út lóðir á vellinum.

Feðgar og Hjaltalín opnar – Feðgar úr Brokey opna verslun við hliðina á Mæðgur og Magazín.

Ljósleiðarinn kominn – Nóg að mæta bara í Bónus og greiða tengigjald, allt klárt.

Spekingum bannað að mæta á Olís – Vegna kvartana frá ferðamönnum verður þeim sem mæta reglulega í kaffi á Bensó bannað að eiga þar orða- og skoðanaskipti.

Kirkjufelli lokað – Það er ekki hægt.