Arion banki lokar í Grundarfirði

Tilkynnt var í vikunni um lokun útibús Arionbanka í Grundarfirði. Útibúið mun sameinast Stykkishólmi í byrjun nóvember n.k. Viðbrögð voru hörð við þessum fréttum sem bárust bæjaryfirvöldum og fyrirtækjum í Grundarfirði degi áður en frétt birtist um málið á vef Arionbanka. Bæjarstjórn Grundarfjarðar sendi frá sér harðorða ályktun um málið. Tveir starfsmenn starfa í útibúinu í Grundarfirði og bjóðast þeim störf í Stykkishólmi. Arion banki í Grundarfirði stendur á gömlum merg og er eina bankaútibúið í Grundarfirði. Lokun útibús í Grundarfirði hefur í för með sé að viðskiptavinir sem þurfa að sækja þjónustu í útibú þurfa að aka 80 km leið til þess. Í færslu sem Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðar birti á þriðjudagskvöld á Facebook síðu sinni segir hún: „Skýringar bankans á ávinningi þessara ráðstafana hafa ekki komið fram, en vísað er til minnkandi aðsóknar að útibúum landsins og alþjóðlegrar þróunar. Sparnaðinn við það eitt að leggja af húsnæði þessa litla útibús er afar erfitt að koma auga á. Sé hann einhver, má velta fyrir sér hverjum hann kemur til góða á endanum.

Arion banki hefur markað stefnu um samfélagslega ábyrgð sína. Samfélagslega ábyrg eru félög sem með markvissum hætti skipuleggja starfsemi sína þannig að þau skaði ekki samfélagið og umhverfið heldur hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins sem þau starfa í (Festa).“

am/frettir@snaefellingar.is