Árlegt héraðsmót HSH í Stykkishólmi

Sunnudaginn 7. maí sl. mættu um 54 keppendur til leiks á árlegt héraðsmót HSH í frjálsum íþróttum innanhúss. Frjálsíþróttaráð HSH stóð að undirbúningi og framkvæmd mótsins sem fram fór í Íþróttamiðstöð Stykkishólms.

Keppendur komu frá öllu Snæfellsnesi og kepptu í hinum ýmsu greinum.

Átta ára og yngri kepptu í langstökki með og án atrennu auk 35m hlaupi. Keppendur á aldrinum 9-10 ára kepptu í sömu greinum að viðbættu hástökki. 11 ára og eldri kepptu í fyrrgreindum greinum en hjá þeim bættist kúluvarp við. Þar var skipt í aldursflokkana 11-12 ára, 13-14 ára, 15-16 ára og 17 ára og eldri.

Mótið gekk vel og stóðu krakkarnir sig með prýði. Í lok móts fengu keppendur þátttökuverðlaun frá HSH. Var það vatnsbrúsi með merki HSH sem útbúið var af Hrafnhildi Jónu í Krums-Handverki og hönnun.

Myndasafn má sjá hér.