Miðvikudagur , 23. janúar 2019
Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar

Bæjarstjóri með stórt hjarta

Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar

SÍBS og Hjartaheill munu í samstarfi við sveitarfélögin og heilsugæsluna á Snæfellsnesi bjóða upp á ókeypis heilsu­farsmælingu fyrstu helgina í febrúar. Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri í Grundarfirði var sérstaklega ánægður með fram­ takið enda sjálfur glímt við hjartasjúkdóm og á að eigin sögn læknavísindunum „líf sitt að launa”.

Stefanía G. Kristinsdóttir, fræðslu­ og kynningarfulltrúi SÍBS ræddi við Þorstein.

Hvenær komu veikindin í ljós?

Það gerðist haustið 2006 á Vopnafirði þegar ég var að fara í göngur. Ég er að leggja á hestinn, finn fyrir verkjum og fer afsíðis, jafna mig og fer á bak. Eftir að við erum komin upp á heiði þá ágerist verkurinn og ég tilkynni félögum mínum að ég ætli að snúa við, eitthvað sé ekki eins og það á að vera og ég þurfi að fara til læknis. Ég læt heilsugæsluna vita, ríð að bílnum og keyri á heilsugæsluna þar sem ég var greindur með mikinn hjartslátt eða um 260 slög á mínútu. Þaðan er ég fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur á Landsspítalann. Eftir að hafa farið í skoðun og þræðingu er ég greindur með stækkandi hjarta og tæki sem er hvort tveggja í senn gangráður og bjargráður er komið fyrir í mér og tengt við hjartað.

Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að hjartað er latt en gangráðurinn gerir það að verkum að ég fer aldrei niður fyrir 60 slög á mínútu og bjargráðurinn grípur inn í ef hjartað stoppar eða fer í yfirsnúning með því að senda frá sér rafstuð til að endurræsa systemið.

Ég hafði aðeins verið farin að finna fyrir einkennum áður t.d. þegar ég var í tennis eða að hlaupa þá fann ég stundum fyrir svima við snarpar hreyfingar og í almennri læknisskoðun hafið komið fram að hjartslátturinn væri frekar hægur.

Næsta áfall var síðan á aðal­fundi SSA á Borgarfirði Eystra í desember 2008 en þar vildi svo til að ég var að ræða um mikilvægi sjúkraflutninga fyrir landsbyggðina og þegar ég var um það bil að ljúka máli mínu þá datt ég niður og hefði líklega ekki vaknað aftur nema fyrir það að bjargráðurinn tók yfir og kom hjartanu í gang. Ég rankaði við mér á fundinum og velti fyrir mér hvar ég væri og hvað hefði gerst? Hjúkrunarkonur á staðnum veittu fyrstu hjálp og í kjölfarið var ég fluttur aftur með sjúkrabíl á Egilsstaði og síðan til Reykjavíkur með flugi. Eftir þetta komu 2 áföll þar sem bjargráðurinn greip inn í áður en illa fór.

Viðhald á tækjabúnaði

Bjarg­- og gangráðurinn eru lífsnauðsynleg tæki og án þeirra væri ég sennilega ekki hér. Ég er óendanlega þakklátur fyrir þau ótrúlegu úrræði sem lækna­ vísindin búa yfir og þrátt fyrir að ég hafi þurft að breyta um lífsstíl þá get ég sinnt mínu starfi og áhugamálunum. Þó ég hlaupi ekki eins hratt og fari mér aðeins hægar, vinn meira eins og jarðýta en ekki Porsche. Það að fara sér hægar hefur um leið orðið til þess að ég tek betur eftir umhverfinu, íslensku flórunni og því sem er að gerast í umhverfinu með nokkuð öðrum hætti en áður var.

Árið 2013 var komið að því að uppfæra tækjabúnaðinn og skipta um batteríin. Eitthvað klikkaði því ég fékk sýkingu og þurfti að fara til Noregs í erfiða aðgerð til að taka burt tækjabúnaðinn og tilheyrandi leiðslur úr hjartanu til að komast fyrir sýkinguna. Í aðgerðinni var ég deyfður en ekki svæfður og upplifði nokkrum sinnum að ég myndi ekki hafa það af. Aðgerðin heppnaðist engu að síður vel og eftir á annan mánuð á spítölum gat ég aftur snúið mér að daglegu lífi. Frábært hvað hægt er að gera með aðstoð þekkingar og vísinda. Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim góðu og styrku höndum sem komu að því að stilla gangverkið í mér á nýjan leik.

Undir stöðugu eftirliti

Ég fer reglulega í eftirlit þar sem mæld eru ýmis gildi og farið yfir niðurstöður sem skráðar eru sjálfvirkt í tækjabúnaðinn, sem er nú innbyggður í mig. Auk þess lesa tækin á hverri nóttu inn upplýsingar og senda sjálfvirkt á Landspítalann, þannig að það má segja að ég sé undir stöðugu eftirliti. Maður upplifir öryggi að vita af þessum búnaði inn í sér og alveg merkilegt að þetta sé yfirhöfuð hægt.

Þorsteinn hvetur alla Grund­firðinga og Snæfellinga til að nýta sér mælingarnar um helgina en þær verða í:

Heilsugæslunni í Ólafsvík kl. 10-13 laugardaginn 4. feb.

Heilsugæslunni í Grundarfirði kl. 15-18 laugardaginn 4. feb.

Heilsugæslunni í Stykkishólmi kl. 10-14 sunnudaginn 5. feb.

Mældur er blóðþrýstingur, blóð­fita, blóðsykur og súrefnismettun auk þess sem boðið verður upp á öndunarmælingu hjá hjúkrunar­fræðingi fyrir þá sem mælast lágir í súrefnismettun. Þátttakendum gefst jafnframt kostur á að taka þátt í lýðheilsukönnun SÍBS “Líf og heilsa”.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli