Bæjarstjórnarfundur

Bæjarstjórn Stykkisihólmsbæjar

Í fundargerð bæjarstjórnar frá 13.09.2018 voru til afgreiðslu þrjár fundargerðir bæjarráðs frá liðnu sumri. Síðasta fundargerð bæjarráðs frá 6.9.2018 gerir að mati bæjarstjórnarfulltrúa L og O lista tilefni til bókana. Annarsvegar bókar Lárus Ástmar L-lista sig andsnúinn samningi um Eldfjallasafn sem endurnýjaður var í vor. „Samningurinn er undirritaður 10. maí af þáverandi bæjarstjóra án heimildar bæjarstjórnar þrátt fyrir að um fjárhagsskuldbindingar sé að ræða. Ekki er réttlætanlegt á nokkurn hátt að samþykkja þessi vinnubrögð með því að staðfesta samninginn eftirá. Samningurinn var gerður án vitundar, og var haldið leyndum fyrir bæjarfulltrúum L-listans. Ég tel að Stykkishólmsbær eigi að segja sig frá rekstri safnsins og húsið verði tekið til annarrar notkunar í þágu bæjarbúa.“ segir í bókun Lárusar. Samningurinn um rekstur safnsins til eins árs var staðfestur.

Fulltrúar O-lista, Haukur Garðarsson og Erla Friðriksdóttir, bóka vegna styrkbeiðni vegna máltíða fyrir erlenda leikmenn Kkd. Snæfells. Sótt er um að leikmenn fái mat frá eldhúsi Stykkishólmsbæjar um helgar. Haukur og Erla leggja fram eftirfarandi bókun: „Undirrituð hafna veitingu styrks til einstakra leikmanna og deilda innan Snæfells þar sem slík styrkveiting er fordæmisgefandi fyrir aðrar deildir og leikmenn félagsins.“ Niðurstaða fundarins var að vísa málinu til frekari vinnslu í bæjarráði.

Farið var yfir fjárhagsstöðu Stykkishólmsbæjar og mun SSV fara yfir þróun tekna og kostnaðar hjá Stykkishólmsbæ s.l. 10-15 ár auk þess sem skoðað verður hvernig íbúaþróun hefur verið á sama tíma.

am/frettir@snaefellingar.is/Mynd úr safni