Baráttan við lúpínu og kerfil

Lúpína og kerfill eru áberandi þessa dagana. Stykkishólmsbær tók þá framsýnu ákvörðun að hefja aðgerðir gegn þessum ágengu plöntum sumarið 2010. Síðan þá hefur lúpína verið slegin einu sinni á hverju sumri en skógarkerfill og spánarkerfill 2-4 sinnum.

Verulegur hluti lúpínunnar drepst við slátt á ári hverju, en gríðarlegur fræforði í jarðvegi gerir það þó að verkum að nýjar plöntur spretta upp þegar aðrar drepast. Vitað var að fræforðinn myndi duga í mörg ár og því er brýnt að sleppa aldrei úr ári, svo ekki verði endurnýjun á fræforðanum. Þótt vætutíðin í sumar virðist hafa gert lúpínunni gott er mikilvægt að missa ekki móðinn.

Kerflarnir hafa reynst erfiðir viðfangs hér eins og í öðrum löndum. Þótt útbreiðsla þeirra virðist ekki hafa minnkað, hafa aðgerðirnar haldið aftur af frekari útbreiðslu þeirra í bæjarlandinu, sem er frábær árangur.

Á seinustu árum hefur Stykkishólmsbæ reynst erfiðara að fullmanna sláttugengi bæjarins og er nú svo komið að þeir ágætu piltar sem sinna verkefninu hafa vart undan. Við hvetjum sláttugengið til dáða og vonumst til að íbúar leggi þeim lið með því að slá eða slíta lúpínu og kerfla t.d. í sínum garði eða annars staðar í nærumhverfinu.   

Fáir átta sig sennilega á því að bærinn okkar liti allt öðruvísi út í dag ef aðgerðir hefðu ekki farið af stað árið 2010. Með því að kíkja á lúpínutilraunareiti Náttúrustofunnar á landgræðsluskógasvæðinu norðaustan við Nýrækt má fá innsýn í það.

Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee,
Náttúrustofu Vesturlands