Best skreyttu húsin!

Á aðventunni fóru íbúar dvalarheimilisins í hina árlegu ljósaferð um bæinn með Gunnari  Hinrikssyni rútubílstjóra, þegar búið var að gæða sér á kaffi og vínarbrauði í boði Eiríks Helgasonar bakara. Nokkuð erfitt þótti okkur að velja aðeins eitt hús svo við komum okkur saman um að hafa sigurvegarana tvo. Að okkar mati voru það Hjallatangi 4 með skreytingar sem eru skemmtilegar, snyrtilegar og stílhreinar og Tjarnarás 4 með persónulegar, litríkar og fallega lifandi skreytingar. Önnur hús sem vert er að nefna og bera einnig af að okkar mati eru Höfðagata 15, Árnatún 5 og hinn ljósmikli Hjallatangi 26. Með í ferð voru tveir hollvinir dvalarheimilisins þeir Agnar Jónasson og Árni Ásgeirsson og þökkum við þeim kærlega fyrir góða samveru. Við á dvalarheimilinu viljum svo koma á framfæri kærleikskveðjum og bestu þökkum til Eiríks bakara fyrir gott og girnilegt boð í bakaríið og Gunnars rútubílstjóra sem var svo elskulegur að bjóða okkur í ljósaferðina. Dvalarheimilið sendir öllum Stykkishólmsbúum hlýjar jóla- og nýárskveðjur.

am/frettir@snaefellingar.is