Boltinn rúllar

Fótboltinn heldur áfram að rúlla og nóg að gera hjá Víking Ólafsvík meistaraflokk karla og kvenna.

Mánudaginn 19. júní tók karlaliðið á móti Stjörnunni í Pepsídeildinni. Var það hörkuleikur sem endaði með sigri heimamanna og náðu þeir sér í 3 dýrmæt stig í þeim leik. Stúlkurnar náðu sér einnig í fyrstu stig sumarsins þegar þær sóttu Tindastól heim í 1. deildinni fimmtudaginn 15. júní síðastliðinn hífðu þær sig upp úr neðsta sætinu með þessum sigri og eru því komnar með 4 stig í næst neðsta sætinu. Næsti leikur þeirra er við ÍA sem eru í næsta sæti fyrir ofan þær með 7 stig.

Karlaliðið spilaði svo við Víking Reykjavík á síðasta mánudagskvöld á Víkingsvellinum í Reykjavík. Var þetta hörkuleikur og var lengi vel jafnt 0 ­- 0. Dálítill darraðadans varð í lok fyrri hálfleiks og fóru þá þrjú gul spjöld á loft. Tvö á leikmenn Víkings R og eitt á leikmann Víkings Ó. Alex Freyr Hilmarsson skoraði fyrir Víking R á 50. mínútu úr aukaspyrnu. Alex Freyr bætti svo við öðru marki sínu á 84. mínútu eftir stoðsendingu frá Ívari Erni Jónssyni. Urðu þetta úrslit leiksins en leikmenn Víkings Ó börðust fram á lokamínútu þó það dygði ekki til. Í næsta leik sækja þeir FH heim í Kaplakrika föstudaginn 7. júlí.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli