Bræður opna kaffihús

Kaffihúsið Kaldilækur mun opna á næstunni í Snæfellsbæ. Kaffihúsið er staðsett í Sjómanna­garðinum í Ólafsvík og verður rekið af þeim bræðrum Antoni Jónasi og Ólafi Hlyni Illugasonum. Aðspurður að því hvaðan þessi hugmynd hafi komið sagði Anton Jónas:

„Það hefur lengi staðið í mér hvað það sé lítið að gera fyrir ungt fólk hérna í Snæfells­bæ, eða allavegana hefur mér fundist sárvanta kaffihús eða stað þar sem vinir geta komið saman og horft á leik í enska, spilað borðspil eða bara spjallað saman yfir einum kaffibolla. Ég sjálfur hef þrætt fjölmörg kaffihús á öllum heimshornum og það hefur alltaf heillaði mig að sjá heimafólk á öllum aldri koma saman á einum stað til þess að læra, hittast á fundi og rætt daginn og veginn. Á endanum hugsaði ég að ef að ég, tvítugur maður sem er ekki bundinn við neitt leggst ekki í svoleiðis verkefni þá veit ég ekki hver ætti að gera það. Staðsetningin er svo eitthvað sem hefur lengi heillað mig.

Kaldilækur stendur í hjarta Sjómannagarðsins sem er svo staðsettur í hjarta Ólafsvíkur. Húsið er aldargamalt og á mikla sögu sem snertir flesta bæjarbúa sem hafa á einhverjum tímapunkti búið eða allavegna tengst húsinu á einn eða annan hátt í gegnum tíðina. Kaffihúsið mun svo líka vonandi auka traffík í gegnum garðinn sjálfan sem, að mér finnst, sé allt of lítið notaður.”

Til að byrja með ætla þeir bræður að bjóða upp á gott kaffi, bjór, vín og kökur. Áætla þeir svo að bjóða svo upp á súpu í hádeginu þegar fram líður. „svo sjáum við til hvort við verðum ekki með eitthvað óvænt og skemmtilegt í framtíðinni“ sagði Anton Jónas. Stefnt er að því að kaffihúsið Kaldilækur opni helgina 5. maí og verður hægt að fylgjast nánar með því á fésbókinni, Instagram og Twitter undir Kaldilækur. Ætla þeir að láta opnunartímann ráðast af því hvernig aðsóknin verður enda eru þeir báðir að opna svona stað i fyrsta sinn og vilja spila þetta af fingrum fram í byrjun. Þeir hafa þó ekki staðið einir í því að koma þessu af stað og hafa þeir fengið góða aðstoð frá fjölskyldu og vinum og eru vissir um að þau muni áfram standa þétt við bakið á þeim í sumar. Þeir munu verða tveir að vinna til að byrja með en sögðu að það yrði aldrei að vita hvort þeir ráði inn annan starfsmann þegar líður á sumarið.

Hlakkar þeim bræðrum til sumarsins og vonast til að sjá sem flesta sem leið eiga vestur í sumar og ekki myndi nú skemma fyrir ef þeir settust niður og fengju sér einn kaffibolla.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli