Breytingar hjá Bókaverzlun Breiðafjarðar

Eins og við höfum fjallað um í vikunni þá standa verslnir í landinu, ekki síst á landsbyggðinni, frammi fyrir breyttu landslagi.  Á næstu vikum lokar þannig verslunin Mæðgur & Magazín hér í Stykkishólmi.  Þar hefur verið auglýst rýmingarsala nú um helgina. Það verður eftirsjá af versluninni sem hefur boðið upp á fatnað, gjafavöru ofl.

Ein breyting kallar stundum á aðrar og mun Bókaverzlun Breiðafjarðar flytja í húsnæðið sem Mæðgur & Magazín eru í núna, við hlið Bónuss.  Þær mæðgur Heiðrún og Rebekka í bókaverzluninni eru bjartsýnar á framhaldið þrátt fyrir að ákveðin eftirsjá fylgi því að fara neðan af plássinu en þá séu einnig önnur tækifæri með nýja staðsetningu.