Breytingar á þjónustu Íslandspósts

Frá og með 1. maí nk. taka í gildi breytingar hjá Íslandspósti á landsbyggðinni.

Ein þeirra breytinga er sú að ekki verður boðið upp á aldreifingu fjölpósts á fimmtudögum eins og verið hefur nema á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu. Fyrir landsbyggðina verður boðið upp á tveggja daga dreifingu.

Flest héraðsfréttablöð eru í slíkri dreifingu og má þá gera ráð fyrir að ekki fái allir lesendur blöðin sama dag. Á þetta við um allan fjölpóst sem dreift er hjá Póstinum. Viðburðardagskrár og tilboðsbæklingar munu því ekki berast lesendum samdægurs frá og með 1. maí séu þær í dreifingu hjá Póstinum.

Fyrir um ári síðan fækkaði Íslandspóstur dreifingardögum sínum í dreifbýli þar sem umhverfi bréfasendinga hefði breyst á undanförnum árum vegna tækniframfara. Mætti það þónokkrum mótmælum en færri en Pósturinn gerði ráð fyrir.