Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Breytt umhverfi

Ný lög um heimagistingar tóku gildi í byrjun þessa árs. Samkvæmt þeim er leyfilegt að leigja út heimili, eða aðra fasteign í persónulegri notkun leigusala, í allt að 90 daga á ári. Tekjur leigunnar mega ekki vera meiri en 2 milljónir kr.

Þeir gististaðir sem höfðu rekstrarleyfi áður en ný lög tóku gildi þurfa ekki að sækja um leyfi til heimagistingar og fá að halda sínum rekstri út gildistíma leyfis síns.

Þar er því spurning hvort að gististaðir sem hafa boðið upp á gistingu í meira en 90 daga í íbúabyggð þurfi að minnka við sig þegar leyfi renna út. Þegar hafa nokkur þeirra runnið út og munu nokkur klárast á næstu misserum. Allavega er eitt dæmi um gististað sem færði sig úr heilsárs gistingu í heimagistingu í 90 daga eftir að leyfi rann út.

Í fundargerð bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 22. júní sl. kemur fram að viðræður við nágrannasveitarfélög standi yfir með það að markmiði að samræma reglur á grundvelli nýrra laga, hvað varðar rekstrarleyfi gististaða í íbúðarhúsahverfum.

Þá mælir bæjarráð með því að „að stefna að því sé það nauðsynlegt, að skipulagi verði breytt þannig óyggjandi sé að heimilt verði, með ströngum skilyrðum , að minniháttar atvinnurekstur eins og t.d. gististarfsemi sé heimil á þeim svæðum sem skilgreind eru sem íbúðabyggð í skipulagi bæjarins.”

Í samtali við Stykkishólms-Póstinn segir Sturla Böðvarsson bæjarstjóri að sveitarfélög á Snæfellsnesi auk Borgarbyggðar séu að vinna að því að samræma reglur og vinna að því að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Afstaða bæjaryfirvalda er sú að þeim finnst óeðlilegt að gististaðir geti ekki starfað áfram eins og verið hefur þegar leyfi renna út. Sturla tekur dæmi um fólk sem búi í stóru húsnæði hafi þarna tækifæri til þess að skapa sér atvinnu.

Stefnt er á aðalskipulagsbreytingu sem leyfi minniháttar atvinnustarfsemi í íbúabyggð s.s. gististarfsemi að uppfylltum skilyrðum og samþykki nágranna.

Nánar verður fylgst með gangi mála á síðum Stykkishólms-Póstsins þegar línur fara að skýrast.

Alls eru 9 skráðar heimagistingar í Stykkishólmi þar sem leigt er út í 90 daga.